149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:12]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að hér sé komin fram tillaga til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2019–2023. Mér líst vel á þær áherslur sem eru settar fram í þessari tillögu og held að það sé mjög mikið til bóta, alla vega í framsetningu og eins í áherslunni sem því fylgir, hvernig er verið að tengja þróunarsamvinnuna við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og flétta mannréttindanálgun inn í þróunarsamvinnuna. Þó svo að ég átti mig á því að þannig hefur það alltaf verið að einhverju marki þá held ég að það skipti máli að skrifa það enn betur inn og ítreka það enn frekar. Það er einmitt nauðsynlegt að hafa slíka nálgun til þess að þróunarsamvinnan nái í raun til þeirra allra viðkvæmustu í fátækustu samfélögum heimsins. Ég vil þar til að mynda nefna konur, því að það hefur svolítið verið rætt um stöðu kvenna í þessari umræðu.

Mér finnst það mjög jákvætt að hlutfallið af landsframleiðslu sem við veitum til þróunarsamvinnu sé að hækka. Ég persónulega hefði gjarnan viljað sjá það hækka enn meira og tel að Ísland eigi að stefna að því að ná 0,7% markmiðinu eins og reyndar kemur fram að íslensk stjórnvöld styðja. Ég hefði viljað að við færðumst hraðar í átt að því markmiði, en fagna þó engu að síður því að verið sé að taka skref til að færa okkur nær því og tel það mjög gott.

Ég á sjálf sæti í þróunarsamvinnunefnd og ég heyri ekki annað frá þeim sem hvað best þekkja til þróunarsamvinnu og þess starfs sem fer fram á vettvangi en að það sem Ísland er að gera, og þá kannski sérstaklega í tvíhliða þróunarsamvinnu, sé með þeim hætti að það fjármagn sem við setjum í þessi mál nýtist mjög vel. Ég held að það þurfi alla vega ekki að velkjast í neinum vafa um að það fjármagn sem við setjum í þennan málaflokk nýtist fólki sem býr við gríðarlega fátækt og að það nýtist mjög vel.

Mér finnst mjög mikilvægt að nefna það alltaf og minna á að þróunarsamvinna á alltaf að fara fram á forsendum viðtakndaríkisins, þ.e. þróunarsamvinnan er til þess að lyfta fátækustu ríkjunum upp úr fátækt. Hún á ekki að verða til þess að íslensk fyrirtæki geti á einhvern hátt grætt á þróunarsamvinnunni.

Að því sögðu þá býr í íslensku samfélagi gríðarlega mikil þekking og oft sérþekking á ýmiss konar sviðum og auðvitað eigum við að miðla af þeirri þekkingu, m.a. í þróunarsamvinnu. En mér finnst mikilvægt að halda því til haga að við verðum að passa upp á að þar séu þá fyrst og fremst þarfir viðtakandaþjóðarinnar sem eru hafðar að leiðarljósi.

Að lokum langar mig að koma inn á það sem aðeins hefur verið rætt hérna í dag, en það er það fjármagn sem fer af framlögum til þróunarsamvinnu en nýtist hælisleitendum og flóttamönnum hér á landi. Mér finnst mikilvægt að við tökum vel á móti fólki sem hingað kemur og er að flýja hræðilega neyð og oft hræðilegt ástand í sínum heimalöndum. En ég set spurningarmerki við það hvort fjármagn í það eigi að fara af þessum fjárlagalið, og í hve miklum mæli það eigi að fara af þessum lið.

Ég held að það þurfi að fara gríðarlega vel yfir þessi mál. Mín skoðun er sú að það eigi að fjármagna móttöku hælisleitenda og flóttamanna af öðrum fjárlagaliðum en þeim sem fer til þróunarsamvinnu, en ég veit að þetta verður skoðað, m.a. vegna þess að DAC er að vinna að því að skýra enn frekar þær reglur sem fjalla um það hvernig megi telja fram aðstoð sem er veitt innan lands. Við hér á Alþingi og við sem erum í þróunarsamvinnunefnd, sem og hæstv. ráðherra og utanríkisráðuneytið sjálft, hljótum að fylgjast vel með því sem þar kemur fram. En þar er bara um ákveðnar lágmarksreglur að ræða og ekkert sem stendur í vegi fyrir því að við Íslendingar ákveddum bara að gera enn betur en lágmarksreglurnar segja fyrir um. En það er samt sjálfsagt að fylgjast með því og vita þá a.m.k. hverjar leikreglurnar eru þegar að þessum efnum kemur og eins að sjá hvernig löndin í kringum okkur gera hlutina. Þar held ég að sumt ættum við jafnvel að taka okkur til fyrirmyndar, en annað held ég að sé alls ekki til eftirbreytni í þeim málum. Þetta er hlutur sem við þurfum að skoða enn frekar.

Að lokum vil ég aftur fagna því að þessi þingsályktunartillaga um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2019–2023 sé komin fram. Áherslurnar í henni tel ég að séu réttar. Framlögin eru að stíga upp á við og svo þurfum við bara í framhaldinu að bæta enn frekar í. Því miður er það svo að heimurinn þarf á því að halda og þá ekki síst fátækasta fólkið í heiminum.