149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni, umræðan er mjög mikilvæg. Ég held t.d. að umræðan hér í dag, fyrir þá sem fylgjast með henni, hafi verið fróðleg því að hér hafa allir hv. þingmenn lagt til mikla þekkingu og komið með góða og málefnalega nálgun á þennan málaflokk.

Hv. þingmaður er, eins og kom fram, í þróunarsamvinnunefnd og það er mjög mikilvægt að þróunarsamvinnunefnd og hv. utanríkismálanefnd séu vel inni í málum og fylgist með og ræði þessi mál og veiti ráðuneytinu aðhald. Hv. þingmaður vísaði til þess í ræðu sinni að miðað við þær úttektir sem gerðar hafa verið af erlendum aðilum virðist margt ganga mjög vel hjá okkur. Það sem við erum að gera er að fara yfir athugasemdir þeirra og ein af athugasemdunum sneri að atvinnulífinu, að við þyrftum að virkja það frekar inn í þróunarmálin. Það er gert með þessum hætti. Það er ekki eitthvað sem við fundum upp á Rauðarárstígnum heldur er það það sem við drögum af þekkingu annars staðar frá.

Ég fór á fund sem utanríkisráðherra Danmerkur hélt með utanríkisráðherrum Afríku um þessi mál í Kaupmannahöfn. Ég hef sömuleiðis talað við starfsmenn dönsku utanríkisþjónustunnar til að fá það frá fyrstu hendi hvað hefur gengið vel hjá þeim og hvað illa. Þeir eru allir, og ég heyri það líka frá öðrum Norðurlandaríkjum, tilbúnir til að miðla reynslu sinni til okkar. Ég held að það sé mikilvægt að við fundum um þetta hér á Íslandi, m.a. með þessum aðilum. Það er mikilvægt að þingmenn í utanríkismálanefnd og þeir sem eru í þróunarsamvinnunefnd fái að hitta fólkið beint til að ræða þessi mál. Auðvitað er stigsmunur í viðhorfum og menn eru ekki sammála um alla hluti. En því meiri þekking, þeim mun betra. Reyndar held ég að allir séu að róa í sömu áttina og þá er best að fara vel yfir það, m.a. í þeim nefndum sem ég vísaði hér til og á þingi.