149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

178. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Líkt og forseti kom inn á mæli ég hér fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, sem lýtur að íslenskukunnáttu — þá dýralæknanna, ekki dýranna.

Ég ólst nú upp við frásagnir af virtum dýralækni, Dagfinni dýralækni, sem talaði dýramál og gat talað jafnt við apaketti, ókapa, tvíhöfða og gott ef ekki skötuseli, en svo er því víst ekki farið í raunheimum og þess vegna höfum við þurft að hafa um þetta reglur. Samkvæmt lögum í dag þurfa dýralæknar í öllum störfum að búa yfir íslenskukunnáttu. En staðan hefur hins vegar verið sú að við ákveðin störf, sérstaklega í sláturhúsum, hafa ekki fengist dýralæknar til starfa þannig að það hefur þurft að ráða dýralækna sem hafa ekki íslenskukunnáttu.

Þetta frumvarp til laga frá hæstv. ríkisstjórn veitir þá undanþágu að við ákveðin störf megi dýralæknir starfa þó að þeir hafi ekki vald á íslenskri tungu. Gerð sem sagt undanþága varðandi íslenskukunnáttu.

Nefndin fjallaði um málið og fékk til sín fjölda gesta frá ráðuneytinu, Bændasamtökunum, Dýralæknafélagi Íslands og Matvælastofnun. Umsagnir bárust um málið frá Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands og frá Gunnari Þorkelssyni og Jarle Reiersen.

Það er skemmst frá því að segja, forseti, að dýralæknar voru pínulítið uggandi yfir þessu máli. Svo ég tali nú bara hreint út þá komst hv. atvinnuveganefnd að því — ég vona að ég sé ekki að mæla um of fyrir munn annarra en minn eigin — að það þurfi að skoða vel hag dýralækna, starfskjör, samninga og starfsaðstöðu. Í raun og veru þarf að skoða málaflokk þeirra allan í heild sinni. Þessi breytingartillaga á lögunum tekur hins vegar ekkert á því, eðlilega. Hér er bara verið að fjalla um mjög afmarkaðan þátt. Nefndarálit atvinnuveganefndar ber merki þess.

Forseti. Með frumvarpinu er lagt til að fallið verði frá kröfu 5. mgr. 6. gr. gildandi laga um að dýralæknar í opinberri þjónustu hafi vald á íslenskri tungu. Lagt er til í 1. gr. frumvarpsins að heimilt verði að gera kröfu um íslenskukunnáttu í reglugerð ef slík kunnátta er talin nauðsynleg í starfi. Fyrir liggur álit umboðsmanns Alþingis nr. 9510/2017 um að ekki samræmist lögum að Matvælastofnun ráði til starfa eftirlitsdýralækna sem hafa ekki vald á íslensku. Frumvarpið er því lagt fram til að svigrúm verði fyrir hendi til að manna stöður dýralækna án þess að farið sé á svig við lög.

Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að nauðsynlegt væri að dýralæknar í opinberum störfum hefðu vald á íslenskri tungu. Einnig var lýst áhyggjum af starfsumhverfi dýralækna hér á landi, að mikið álag væri í störfum þeirra og að ekki nema um helmingur nýútskrifaðra dýralækna erlendis sneri til Íslands til starfa. Einnig var við meðferð málsins vísað til þess að hafin væri heildarendurskoðun laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og brýnt væri að þeirri vinnu yrði haldið áfram.

Nefndin tekur undir framangreint og hvetur til þess að þessari vinnu verði hraðað og þar tekið tillit til sjónarmiða sem fram komu í umsögnum við frumvarpið og horft til skýrslu starfshóps um endurskoðun löggjafar um dýrasjúkdóma og dýralækna frá því í október 2017.

Forseti. Það hefur verið unnin úttekt á stöðunni sem ég tæpti hér mjög lauslega á í upphafi máls míns. Í skýrslunni frá því í október 2017 er að finna ýmsar tillögur og ágætisgreiningu á stöðunni. Hv. atvinnuveganefnd hvetur til þess að vinnunni verði hraðað við endurskoðun umhverfisins og byggt verði á þessari skýrslu. Um að gera að nýta það sem þegar er búið að vinna í þessu, þurfa ekki að byrja frá byrjun.

Hins vegar telur nefndin að Matvælastofnun verði að vera kleift að ráða dýralækna til starfa svo að hún geti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu. Á öðrum sviðum hefur verið þörf fyrir starfsfólk erlendis frá og hefur m.a. landlæknir mat um það þegar starfsleyfi er veitt erlendum heilbrigðisstarfsmönnum hvort krefjast eigi kunnáttu í íslensku.

Nefndin telur mikilvægt að þeir sem sæta eftirliti skilji mál þeirra sem sinna eftirlitinu og telur nefndin brýnt að vel takist til við að kynna erlendum dýralæknum íslensk lög og reglur líkt og kveðið er á um í ákvæðinu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir þetta skrifa hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður, sá sem hér stendur, Kolbein Óttarsson Proppé, Inga Sæland, Halla Signý Kristjánsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson og Sigurður Páll Jónsson. Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.

Forseti. Það er von mín að hvatning atvinnuveganefndar til hæstv. ráðherra málaflokksins verði til þess að sem fyrst verði farið í þá vinnu sem hér er kallað eftir um heildarendurskoðun á málefnum dýralækna. Það er mín persónulega skoðun að þegar staðreyndin er sú að ekki nema helmingur íslenskra dýralækna snýr heim frá námi þá þurfi einfaldlega að setjast vel yfir og sjá hverju sætir. Líkt og komið er inn á í álitinu og ég kom aðeins inn á líka hefur staðan verið sú að það hefur reynst erfitt að manna stöður, sérstaklega í sláturtíð. Því hefur ráðning dýralækna sem ekki hafa íslensku á valdi sínu í raun farið í bága við lög. Umboðsmaður Alþingis hefur bent á það. Hér er því verið að veita Matvælastofnun þá heimild að geta ráðið í þessar stöður þegar á þarf að halda. Það breytir því ekki að við teljum mikilvægt við í hv. atvinnuveganefnd, eins og fram kemur í frumvarpinu, að þeir sem sæta eftirliti skilji mál þeirra sem sinna eftirlitinu og auk þess að þeim sem hér á landi starfa, hvaðan sem þeir koma, verði kynnt íslensk lög og reglur.

Forseti. Eins og fram kemur líka í nefndarálitinu hefur t.d. landlæknir álíka heimild og hér er vísað til, það er hægt að veita erlendum heilbrigðisstarfsmönnum starfsleyfi. Það var rætt í nefndinni einnig og persónulega tel ég það einboðið að fyrst að sú heimild er hjá landlækni, þá ætti hún alveg eins að vera fyrir hendi þegar kemur að heilbrigðisþjónustu við dýr.

Þetta er sem sagt nefndarálitið, virðulegur forseti. Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og ég ítreka hvatningu okkar til hæstv. ráðherra um endurskoðun í þessum málaflokki.