149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

ráðherraábyrgð og landsdómur.

[16:58]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir að hefja máls á þessum vangaveltum um landsdóm og ráðherraábyrgð. Þetta er gríðarlega mikilvæg umræða. Hvar liggur ábyrgð ráðherra? Ef ekki með lögum um landsdóm og lögum um ráðherraábyrgð má segja að við séum að lýsa því yfir að þessi tiltekni hópur sé friðhelgur. En ráðherrar eru ekkert friðhelgir af því að við höfum lög, þau eru í gildi.

Í 2. gr. laga um ráðherraábyrgð segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.“

Svo kemur fram í 6. gr., með leyfi forseta;

„Hver ráðherra ber ábyrgð á stjórnarerindum þeim, sem út eru gefin í hans nafni …“

Þetta eru gildandi lög, frú forseti, landslögin okkar, og enginn hér á Alþingi hefur gert neinn reka að því að fella þessi lög úr gildi. Þá má velta fyrir sér: Er þetta eini þjóðfélagshópurinn, ráðherrar, sem ekki þarf að fara að lögum? Af því að þetta eru lög. Það er vont þegar við sendum þau skilaboð út í samfélagið að þessi eini þjóðfélagshópur þurfi ekki að fara að gildandi lögum.