149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019--2023.

403. mál
[19:17]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari þingsályktunartillögu um fjarskiptaáætlun sem hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnir fyrir okkur og leggur fram fyrir þingið. Það er mjög margt gott í tillögunni, til að mynda er í fyrsta sinn lögð fram stefna í fjarskiptum til 15 ára í samræmi við lög frá árinu 2018 um samþættingu og samræmingu áætlana. Það er vel og gott og það er gott vinnulag sem mun koma okkur öllum til góða ef við förum að vinna nánar á þann hátt.

Það eru alla vega tvær spurningar sem mig langar að biðja hæstv. ráðherra að svara og tengjast tilefni mótunar nýrrar fjarskiptaáætlunar. Eins og fram kemur í greinargerð þingsályktunartillögunnar eru tilefni til endurskoðunar á stefnu málaflokksins margþætt og eru talin upp fjögur atriði, m.a. þær miklu áskoranir sem þjóðir heims standa frammi fyrir þegar kemur að fjórðu iðnbyltingunni þar sem fjarskipti, upplýsingatækni, netöryggi og gervigreind leika lykilhlutverk. Svo eru það auðvitað þær vaxandi ógnir á netinu sem við, eins og öll önnur ríki heims, stöndum frammi fyrir og þurfum að bregðast við af alvöru.

Mig langar að heyra aðeins meira um ógnir á netinu, bæði hvernig það rúmast í þingsályktunartillögunni og framkvæmd hennar og hverjar hugmyndir hæstv. ráðherra eru um það hvernig við getum brugðist við þeim.