149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að tala um öryrkja og bága stöðu þeirra núna rétt fyrir jólin í þessari ræðu en ég finn mig knúinn til að tala enn einu sinni um Klaustursmálið.

Vegna umræðu sem fór fram í dag vil ég taka það sérstaklega fram að þegar hv. þingmaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, segir að það sé almenn umræða á þingi eins og sú sem fór fram á þeim vettvangi, eins og hann vill orða það, á þessum bar, þá er það ekki svo og hefur aldrei verið í það ár sem ég er búinn að vera hérna. Ég hef aldrei heyrt svona umræðu. Að klína því yfir á alla aðra er með ólíkindum. Að sitja undir þeirri umræðu er eiginlega stórfurðulegt og þeim til skammar sem ætla að reyna að réttlæta það. Það er ekki hægt að réttlæta þetta.

Nú hefur Öryrkjabandalagið, kvennahreyfingin þar, sent frá sér harðorða yfirlýsingu. Ég á rætur í Öryrkjabandalaginu og Sjálfsbjörgu. Ég hef aldrei á þeim vinnustöðum sem ég hef verið á upplifað svona umræðu. Ég hef aldrei farið héðan út og verið á bar þetta ár sem ég hef verið hérna. Ég fer bara yfirleitt aldrei á bar.

Fyrir utan þetta hlýtur það að drekka í vinnutíma að vera eitt það alvarlegasta sem við gerum og það er öllum til skammar. Ég hef aldrei orðið var við það hér, nema í þessu tilfelli.

Við skulum hafa á hreinu að skömmin er þeirra og allar tilraunir til að reyna að koma því yfir á okkur munu mistakast og við munum aldrei líða það. Þeir geta horft í spegil. Þeirra er skömmin og þeir eiga að taka á sínum málum. Komið þeim ekki yfir á okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)