149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á skýrslu sem kom út í gær. Ég hef veitt forystu starfshópi á vegum samgönguráðuneytisins varðandi uppbyggingu flugvallarkerfis og eflingu innanlandsflugsins. Ég vek athygli á því að þetta er mjög í anda þess ríkisstjórnarsáttmála sem núverandi ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur kom fram með fyrir ári síðan þar sem m.a. er minnst á að á síðastliðnum árum hefur umfang flugs og flugtengdrar starfsemi aukist umtalsvert. Atvinnugreinin er íslensku hagkerfi mikilvæg og er grunnstoð uppbyggingar í ferðaþjónustu.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að unnið verði að því að gera innanlandsflugið að hagkvæmum kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar, að almenningssamgöngur verði áfram byggðar upp um land allt og að landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum. Þetta er mjög í anda þess sem snýr að skosku leiðinni í því sem við samþykktum í þessum sal í júní sl. varðandi stefnumótandi byggðaáætlun þar sem eitt af markmiðunum snýr að þeim þáttum.

Hinn þátturinn sem skýrslan snýr að eru flugöryggismál almennt og uppbygging flugvallarkerfis landsins. Við sjáum það núna í umsögnum aðila við samgönguáætlun á hversu slæmum stað við erum varðandi þau málefni, til að mynda ef litið er til umsagna Isavia varðandi viðhaldsmál á flugvöllum landsins og hver staðan er, þar sem margir vellir eru komnir að mörkum þess að hægt sé að halda þeim opnum. Við sjáum þetta í umsögnum flugfélaganna, Icelandair, Wow air, um stöðu málanna og öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

Ástandið á flugvallarkerfi landsins er grafalvarlegt. Það hlýtur að vera eitt af markmiðum okkar hér að tryggja fjármögnun og uppbyggingu þess á komandi árum með þeim hætti að við getum tryggt það.

Nú er svo komið hjá okkur að ferðaþjónustan byggist á þessum grunninnviðum. Því er algjör forsenda að við förum í þetta verkefni og byggjum upp þá velli og tryggjum þá fyrir framtíðarhagsmuni Íslands.