149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[12:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga. Ég verð að byrja á að segja að það er ekki verið að auðvelda þingmönnum að fara í þá vinnu sem nauðsynleg er áður en þessar umræður hefjast. Skjalið sem við fengum í gær, frekar seint, var ljósmyndað skjal þannig að það var erfitt að vinna með textann og tölurnar. Þetta tel ég mjög óheppilegt og á þessu verður að gera bragarbót.

Í athugasemdum við frumvarpið segir að í fjáraukalögum verði einungis leitað heimilda til að bregðast við útgjaldatilefnum sem hafi verið ófyrirséð við afgreiðslu fjárlaga en sýnt þyki að útgjöldin falli til á árinu og ríkissjóður komist ekki hjá að greiða. Í þessum lögum eiga því einungis að vera ófyrirséð og óhjákvæmileg útgjöld. Svo er hins vegar ekki og mun ég nefna nokkur dæmi þess.

Á bls. 47 í frumvarpinu kemur fram að útgjöld Sjúkratrygginga aukist um 469 millj. kr. vegna aukinnar eftirspurnar eftir sjúkraþjálfun og þá spyr maður sig: Hvers vegna greip ráðherra ekki til aðgerða svo gjöldin væru innan heimilda fjárlaga? Þetta er veruleg umframkeyrsla. Gerði velferðarráðherra fjármálaráðherra grein fyrir því hvernig hann ætlaði að tryggja að þetta færi ekki fram úr? Ráðherra er framkvæmdastjóri yfir þessum málaflokki og verður að grípa til aðgerða. Reglurnar eru með þeim hætti og þær eru til að virða þær. Við getum velt fyrir okkur hvernig þetta væri ef þetta væri einkafyrirtæki. Hver væri þá ábyrgð stjórnenda og hvernig myndu þeir axla þá ábyrgð? Í þessu felst ráðherraábyrgð. Hvernig samræmist það lögum um opinber fjármál að grípa ekki til aðgerða?

Ég kom aðeins inn á IPSAS-staðallinn áðan í fyrirspurn til ráðherra og ítreka það sem ég sagði þá, þetta er mjög stór leiðrétting, 48 milljarðar kr., og hefði átt að gera ráð fyrir því í fjárlögum. Auk þess er komið þarna inn á að það séu afskriftir vegna skattkrafna upp á 18,2 milljarða sem að hluta til sé vegna breyttrar framsetningar reglna. Þetta var hins vegar vitað og þá segir maður: Hvers vegna er þetta í fjáraukanum? Ef framsetningin er ekki rétt spyr maður sjálfan sig: Vissu menn ekki af þessu? Þetta er að mínum dómi ekki í anda laganna.

Á bls. 45 er fjallað um heimild fyrir 900 millj. kr. vegna dómkrafna, þ.e. dómstólarnir dæma með ýmsum hætti og sumt af því fellur á ríkissjóð sem þarf síðan að greiða. Þá spyr maður sig: Er ekki eðlilegt að færð sé almenn varúðarfærsla vegna hugsanlegs taps í dómsmálum? Það hlýtur að vera hægt að gera ákveðna varúðarfærslu því að menn vita að það kemur til með að falla á ríkissjóð.

Áðan kom ég aðeins inn á yfirtöku á lífeyrisskuldum Bændasamtaka Íslands. Þar er verið að sækja 1,5 milljarða heimild í ríkissjóð fyrir þessu og ég held að nauðsynlegt sé að farið verði í úttektir á sjóðum eins og þessum og skýringa aflað áður en samið verður um að yfirtaka skuldbindingar með þessum hætti.

Á bls. 47 í frumvarpinu kemur fram að stefnt sé að samningum við ýmis samtök vegna heilbrigðisþjónustu. Kostnaðurinn þar er um 100 milljónir og þá spyr maður sig: Hvers vegna þarf ráðuneytið að yfirtaka 100 milljónir? Hvers vegna hefur ráðuneytið þá ekki skilað iðgjaldi sem þessu nemur jafnóðum og þjónustan er innt af hendi? Það væru hin réttu og eðlilegu vinnubrögð.

Síðan kemur vanmat á lífeyrisskuldbindingum hjá Brú lífeyrissjóði og nauðsynlegt að nánar verði farið yfir það þegar frumvarpið fer fyrir nefndina.

Útgjöld til samgöngumála eru einar 569 millj. kr., þar af 400 milljónir vegna snjómoksturs. Svona upphæðir eiga náttúrlega að vera í sérstökum varasjóði málaflokksins. Þarna er óvissa og þess eðlis að þetta á ekki að þurfa að koma í fjárauka á hverju ári.

Ég kom í andsvari til ráðherra áðan inn á Vestmannaeyjaferjuna og kostnað þar upp á 117 milljónir. Þetta er nokkuð sem við verðum að taka upp í nefndinni. Hver ber ábyrgð á þessu? Á ríkissjóður að leggja út fyrir svona án þess að reyna að sækja þá kröfu á þann sem ber ábyrgð á seinkuninni sem er væntanlega í þessu tilfelli skipasmíðastöðin? Hið sama gildir um Grímseyjarferjuna, þar er kostnaður upp á 52 milljónir og eins og ég nefndi áðan kemur fram að þessa viðgerð megi rekja til þess að viðgerð árin 2007 og 2008 var ófullnægjandi. Sá sem stóð fyrir þeirri viðgerð hlýtur að bera ábyrgð og það væri fullkomlega eðlilegt að ríkissjóður sækti þá fjármuni þangað. Þetta er nokkuð sem verður að ræða innan nefndarinnar, hver beri ábyrgð á þessum hlutum. Það er mikilvægt að svo verði gert.

Á bls. 47 er einnig fjallað um hælisleitendur og fjárframlag vegna þeirra. Umsóknum hefur fjölgað og kostnaðurinn er um 500 milljónir vegna þess. Þá spyr maður sig: Átti ekki ráðuneytið að geta áætlað þetta í ljósi þess sem á undan er gengið, í ljósi reynslunnar? Þetta er há upphæð, 0,5 miljarðar kr.

Síðan kemur þarna það sem ég spurði ráðherra um áðan, sem hann svaraði reyndar ekki, að gert er ráð fyrir 491 millj. kr. til rammaáætlana Evrópusambandsins um menntun, rannsóknir og fleira. Jafnframt kemur fram að þetta sé samningsbundið og þá spyr maður sig: Hvernig getur eitthvað sem er samningsbundið verið óvænt og ófyrirséð? Ég held að það sé frekar langsótt og þess vegna er alveg ljóst að þetta á ekki heima í fjáraukanum.

Síðan er þarna athyglisverður liður um ýmsar aðrar útgjaldaskuldbindingar sem nema 1.080 millj. kr. Það er nauðsynlegt að fá lista yfir þetta, hvaða upphæðir þetta eru og sundurliðun og ég vænti þess að það komi fram hjá nefndinni.

Á bls. 54 er fjallað um heimildir og talað um Jónstótt, húsnæði vestan Gljúfrasteins, sem ríkissjóður hyggst kaupa. Hvergi er minnst á kaupverðið og maður spyr sig: Hvers vegna var þetta ekki í fjárlögum fyrir 2019? Þetta ár er hvort eð er að verða búið og hið sama má segja um kaup á réttinum að íslenskri orðabók. Ég hefði ekki talið að það væri ófyrirséð og óvænt þannig að það ætti auk þess bara heima í fjárlögum.

Síðan kom ég inn á það sem ráðherrann svaraði hér áðan, endurmat á elli- og örorkulífeyrisgreiðslunum. 2 milljarðar voru í afgang og fóru ekki út til þess fólks sem þarf svo sannarlega á því að halda. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fara yfir þetta. Hvað veldur því að þetta gengur ekki út? Valda skerðingarnar þessu? Eins og Miðflokkurinn hefur margsinnis talað fyrir er nauðsynlegt að bæta kjör þessa hóps sem hefur það alls ekki gott og töluverður hópur innan þessa hóps lifir nánast við fátæktarmörk, þeir sem hafa lítil réttindi í þessu kerfi.

Hið sama má segja um endurmatið á vaxtabótunum sem ég kom inn á áðan. Þar er 1 milljarður sem gengur ekki út. Það er alveg augljóst að þetta kerfi er meingallað og við höfum lagt áherslu á það í Miðflokknum að það verði að endurskoða. Það á að endurskoða þessi skerðingarhlutföll. Við vitum öll að fasteignamat hefur hækkað alveg gríðarlega og það er ekkert tillit tekið til verðmætis eigna í þessu kerfi. Því verður að breyta. Það er ekki hægt að leggja meiri peninga í svona kerfi sem þjónar engan veginn tilgangi sínum.

Svo er mönnunarvandinn á Landspítalanum, það þarf að setja 2,5 milljarða í hann. Þetta er alvarlegur vandi og forstjóri Landspítalans sagði á fundi nefndarinnar að þetta væri bráðavandi sem Landspítalinn stæði frammi fyrir. Það þarf að setjast yfir þetta og finna út hvernig hægt er að leysa þennan vanda í samstarfi við háskólana o.s.frv. til að hvetja fólk til að fara í hjúkrunarfræði. Það þarf að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga, vinnuskyldu, vaktir og launakjör. Það þarf að fara yfir þetta allt saman til að reyna að laða fólk í þetta starf sem er afar mikilvægt. Þarna sjáum við 2,5 milljarða sem þetta kostar samfélagið. Auk þessa nefndi forstjóri Landspítalans að það væri fyrirsjáanlegur halli á næsta ári upp á 1,6 milljarða. Þarna er um verulegar fjárhæðir að ræða og það verður að gera einhvers konar áætlun um það hvernig á að bregðast við þessu.

Á bls. 64 er talað um að Landsréttur eigi að fjármagna rekstur héraðsdómstóla fyrir um 45 millj. kr. Maður spyr sig hvaða afleiðingar þetta hafi fyrir Landsrétt. Það þarf að skýra út. Eru fjárheimildir til Landsréttar það góðar að hann sé aflögufær í þessum efnum? Það þarf að fara yfir það.

Á bls. 65 er sóst eftir 45 millj. kr. heimild til að standa straum af vegabréfsáritunum og ég segi eins og er að ég get ekki séð að það sé ófyrirséð að þurfa vegabréfsáritanir. Ég held að allir átti sig á því og þess vegna á þetta að vera í fjárlögum.

Síðan eru fjárheimildir til sýslumanna vegna heimagistingar. Þetta eru ný verkefni og eiga að sjálfsögðu heima í fjárlögum en ekki fjárauka. Það er ekkert ófyrirséð við ný verkefni.

Hið sama má segja um stjórnsýslu samgönguráðuneytisins. Þar er 25,8 millj. kr. ráðgjöf vegna flugvallakosta á suðvesturhorninu og þetta á að sjálfsögðu líka að vera í fjárlögum. Hið sama má segja um 20 millj. kr. framlag vegna Finnafjarðarverkefnisins. Það er ekkert óvænt við það verkefni. Það er búið að vera í deiglunni í mörg ár.

Á bls. 71 er 25 millj. kr. framlag til Þjóðleikhússins í tengslum við kjarasamninga á yfirstandandi ári. Það væri fróðlegt að fá að vita hvort ráðuneytið túlkar almenna varasjóðinn þannig að ekki eigi að borga af nýjum kjarasamningum úr sjóðnum heldur fjáraukanum. Þetta þarf að skýra.

Ég kom áðan að sjúkrahótelinu og á bls. 74 og 75 er talað um 238,5 millj. kr. framlag vegna flutnings Tryggingastofnunar til Kópavogs vegna myglu. Það kemur fram að lítið hafi verið hægt að flytja af búnaði úr gamla húsnæðinu yfir í það nýja. Varla er myglan í skrifstofubúnaðinum, það þykir mér ósennilegt en þetta eru háar fjárhæðir.

Svo er fjárheimild upp á 3,65 milljarða til brýnna verkefna í vegamálum. Ég get ekki sagt að það sé neitt ófyrirséð. Við vitum alveg hver staðan er í vegakerfinu. Það er ekkert ófyrirséð með það þannig að það er margt í þessum fjárauka, herra forseti, sem á einfaldlega heima í fjárlögum. Það er bara rétt að meiri hlutinn (Forseti hringir.) og ríkisstjórnin fari að fara eftir lögum í þessum efnum.