149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hugmyndir stjórnarandstöðunnar í umræðu um fjárlög að þessu sinni hafa fyrst og fremst einkennst af tillögugerð um stóraukin útgjöld. Þannig hefur Samfylkingin lagt til málanna að ekki sé nægjanlegt að frumútgjöldin á næsta ári hækki um hátt í 5% að raungildi heldur verði það að vera 8% svo við getum náð markmiðum okkar. 8% útgjaldaaukning er framlag Samfylkingarinnar inn í þessa umræðu og hið sama má segja um tillögugerð flestra annarra stjórnarandstöðuflokka, það hefur meira eða minna allt saman snúist um að ausa þurfi úr ríkissjóði stórauknum framlögum til að ná sameiginlegum markmiðum okkar. Stórauknum viðbótarútgjöldum þurfum við að sinna til að ná markmiðum okkar.

Þetta er það sem er óábyrgt í umræðunni sem átt hefur sér stað, fyrir utan að það er algjörlega óskiljanlegur málflutningur varðandi sjávarútveginn, grundvallaratvinnugrein í íslensku efnahagslífi, sem skilar gríðarlegri verðmætasköpun og háum skattgreiðslum til ríkissjóðs, (Forseti hringir.) að menn sjái ekki ljósið þegar verið er að færa greiðslurnar nær í rauntíma og gera kerfið þannig sanngjarnara og betra til allrar framtíðar. Það er ótrúlegt að menn sjái það ekki.