149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

kjararáð.

413. mál
[16:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ósk ríkisins að um það geti samist við kirkjuna að hún taki yfir ákvarðanir um kjaramál presta. Ég ætla að leyfa mér að vera ágætlega vongóður um að samkomulag geti tekist um það. Ég skynja ekki annað en að það sé áhugi og fullur vilji hjá kirkjunni að taka við þessu enda séu önnur samningsatriði frágengin sem því tengjast og öll skilyrði til staðar fyrir kirkjuna til að taka við verkefninu. Á meðan ekki hefur samist þá gildir í raun og veru það sama fyrir presta og aðra sem falla undir frumvarpið, þá munu sem sagt bara síðustu ákvarðanir gilda og menn munu fá hækkun einu sinni til tvisvar á ári eftir aðstæðum, um mitt ár, í júlí á hverju ári, og mögulega í janúar, í samræmi við það viðmið sem við höfum hér verið að ræða. Frumvarpið boðar því ekki annað en opnun á breytingu hvað þetta snertir en felur ekki í sér neina breytingu á réttarstöðu presta eða annarra hjá kirkjunni sem hafa heyrt undir kjararáð.