149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

símenntun og fullorðinsfræðsla.

352. mál
[16:26]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að koma þessu máli á dagskrá. Símenntunarmiðstöðvar um allt land skipta gríðarlega miklu máli. Þær hafa hjálpað til við að hækka menntunarstig og auka lífsgæði íbúa. Þær halda utan um prófatöku. Fólk þarf ekki að fara um langan veg til að fara í próf og annað slíkt þannig að klárlega er mjög jákvætt að þær skuli vera til staðar. Ef ég kann söguna rétt þá voru þær settar af stað úti á landi, það var markaðsbrestur og ríkið komi inn í það að reka þær.

Ég velti fyrir mér: Átti að styrkja símenntunarstöðvar hér á höfuðborgarsvæðinu eins og úti um land? Upphaflega var hugsunin önnur. Mig rekur minni til að hugsunin hafi verið önnur í upphafi. Engu að síður er þetta gríðarlega mikilvægt, hækkar menntunarstig. Þær hafa komið að því að framkvæma raunfærnimat sem hefur verið mjög mikilvægt til að auka framboð á fagfólki. Þetta er mikilvægt mál og ég treysti því að ráðherrann fylgi því eftir líkt og hún hefur tjáð sig um hérna.