149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

ráðstafanir vegna biðlista eftir aðgerðum.

353. mál
[17:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér með okkur í þingsal og ræða þetta málefni sem hefur borið á góma áður. Í ljósi stöðugrar umræðu um langan biðtíma einstaklinga eftir tilteknum aðgerðum í heilbrigðiskerfinu leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort á döfinni sé að grípa til enn frekari aðgerða til að tryggja fólki meðferð fyrr en mögulegt hefur verið.

Ég veit að farið var í sérstakt biðlistaátak fyrir rúmum tveimur árum þegar aukið var fé í tilteknar aðgerðir. Ég held það hafi verið þrír aðgerðaflokkar, það voru liðskiptaaðgerðir, hjarta- og kransæðavíkkanir eða hjartaþræðingar og skurðaðgerðir á augasteinum. Síðan var bætt við átakið í fyrra aðgerðum á grindarholslíffærum kvenna, sem er hið besta mál.

Herra forseti. Í tölulegu yfirliti frá landlækni frá því um mitt ár leynir sér ekki að biðlistar hafa styst á nokkrum sviðum. Það er mikill léttir og sérstakt ánægjuefni. Þetta á við um flesta aðgerðaflokkana nema liðskiptaaðgerðir. Hvað varðar kvenaðgerðirnar bíða þó um 130 konur lengi enn sem þurfa á þungum aðgerðum að halda og líða þrautir. Biðin þar hefur þó líka styst. Þetta eru almennt ekki bráðaaðgerðir sem við erum að fjalla um en geta þó verið það. Þær eru óumflýjanlegar og verða ekki gerðar á handahlaupum meðfram öðru og fara ekki vel saman við starfsemi bráðadeilda.

Við eigum samfélagssjúkrahús, opinberar stofnanir, sem geta unnið þessi verkefni, annaðhvort einar eða í samstarfi við aðrar stofnanir, ég nefni Landspítala, en það kostar.

Ég spyr því: Hefur ráðherra í hyggju að gera þær ráðstafanir að slíkum aðgerðum geti fjölgað, að skipulagi heilbrigðiskerfis verði breytt á þann veg að aðgerðirnar verði fjármagnaður í opinbera heilbrigðiskerfinu, fyrst og fremst á fjárlögum, þ.e. ekki í gegnum sjúkratryggingakerfið? Eða hyggst ráðherra semja við einkastofnanir um verkefnið? Og að lokum: Ef ekki, mega sjúklingar búa sig undir að þurfa áfram og í auknum mæli að sækja sér þjónustu í útlöndum?