149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

ráðstafanir vegna biðlista eftir aðgerðum.

353. mál
[17:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þingmaðurinn spyr um ráðstafanir vegna biðlista eftir aðgerðum í tveimur liðum og spyr í fyrsta lagi hvort ég telji að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana vegna biðlista eftir aðgerðum á nokkrum sviðum heilbrigðisþjónustu, sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir. Undanfarin ár hafa upplýsingar um bið eftir völdum aðgerðum verið birtar þrisvar á ári á vef embættis landlæknis. Síðasta samantekt sem við höfum í ráðuneytinu er frá nóvember sl. eftir nýjustu tölum frá því í október og samkvæmt viðmiðum embættisins skulu 80% þeirra sem bíða eftir aðgerð ekki bíða lengur en í 90 daga. Þetta eru sambærileg viðmið og eru á Norðurlöndunum og öll löndin eiga enn þá langt í land með að ná þeim viðmiðum.

Samkvæmt tölum embættis landlæknis biðu 337 sjúklingar eftir liðskiptaaðgerðum á mjöðm í október sl. Af þeim höfðu 70% beðið lengur en þessa þrjá mánuði. Miðgildi biðtíma var um 20 vikur og þá er eingöngu horft til biðtíma eftir aðgerð en ekki biðar eftir tíma hjá bæklunarlækni til að meta þörf fyrir aðgerð. Bið eftir slíkum tíma er nú 6–8 mánuðir samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum. Í október sl. fóru 703 sjúklingar á biðlista eftir liðskiptaaðgerð á hné eða heldur fleiri en í júní sama ár og þá höfðu 70% beðið lengur en þrjá mánuði. Miðgildi biðtíma var 6–15 mánuðir, misjafnt eftir stofnunum, og bið eftir tíma hjá bæklunarlækni til að meta þörf eftir aðgerð var 6–8 mánuðir í þeim aðgerðum líka. Eins og kom fram í fyrirspurn hv. þingmanns hefur þetta biðlistaátak, sem hefur staðið yfir í þrjú ár um áramótin, snúist um ýmsar tegundir aðgerða. Þegar á heildina er litið má segja að biðlistaátakið hafi skilað miklum árangri í öllum slíkum aðgerðum nema liðskiptaaðgerðum, þ.e. þar er árangurinn umtalsvert minni.

Í nýju minnisblaði frá skurðlækningasviði Landspítala kemur fram að frá því að biðlistaátakið hófst hafi þeim sem bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerðum hjá spítalanum fækkað umtalsvert og þá erum við að tala um það að 2.126 biðu eftir augnsteinaaðgerð í janúar 2016 en 89 í nóvember 2018, þannig að það er alveg umtalsverð breyting. 262 biðu eftir mjaðmaliðaaðgerð 2016 en 132 í nóvember 2018. Við sjáum því að það verða líka jákvæðar breytingar þar en ekki nægilega miklar.

Í ljósi þess sem hér hefur verið farið yfir er auðvitað ástæða til að bæta enn afköst vegna liðskiptaaðgerða. Auk þess að skoða fjölgun aðgerða er ástæða til að endurskoða skipulag, hvernig fólki er forgangsraðað á biðlistana og hvort önnur vægari úrræði en aðgerðir hafi verið skoðuð í öllum tilvikum, til að mynda sjúkraþjálfun. Það er hafinn undirbúningur að breyttu fyrirkomulagi skráningar á biðlista, m.a. með gerð rafræns, miðlægs biðlista til að stuðla að jafnræði og betra upplýsingaflæði til sjúklinga. Það er talið af embætti landlæknis veruleg þörf á að reyna að ná einhverri heildaryfirsýn yfir þessa stöðu. Slíkt fyrirkomulag myndi þá stuðla að því að ávallt liggi fyrir upplýsingar um það hvar er styst bið eftir aðgerð þannig að sjúklingar gætu leitað þangað í stað þess að binda sig við eina tiltekna sjúkrastofnun.

Fjármagnið í biðlistaátakið sem hv. þingmaður nefndi er orðið varanlegt í nýsamþykktum fjárlögum, og í fjármálaáætlun gerum við ráð fyrir 840 millj. kr. varanlega inn í þetta verkefni inn í næstu ár. Í skýrslu NOMESCO um heilbrigðistölfræði á Norðurlöndum var birtur fjöldi aðgerða á hverja 100.000 íbúa eftir kyni en í skýrslunni er fjöldi aðgerða á árinu 2015 birtur og það ár var aðgerðatíðni á Íslandi lægri en á hinum Norðurlöndunum.

Fjöldi aðgerða árin 2016 og 2017 á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis er aftur á móti sambærilegur því sem hann var annars staðar á Norðurlöndunum árið 2015. Þá erum við að tala um fjölda aðgerða, við erum ekki að tala um biðina heldur fjölda aðgerða. Í ljósi alls þessa sem hér hefur verið farið yfir má svara spurningunni á þann veg að ég telji fulla ástæðu til að grípa til ráðstafana vegna biðlista eftir tilteknum aðgerðum og þá sérstaklega hvað varðar skipulag, forgangsröðun og fjármögnun þessara biðlista.

Hv. þingmaður spyr einnig hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að aðstæður verði skapaðar svo ekki þurfi að koma til íþyngjandi og kostnaðarsamra ferðalaga til útlanda til að sækja heilbrigðisþjónustu sem hægt er að veita hér heima, svo sem liðskiptaaðgerðir. Því er til að svara að til að svo megi verða þarf biðtími eftir viðkomandi aðgerðum innan opinbera heilbrigðiskerfisins ávallt að vera innan þeirra marka sem embætti landlæknis hefur sett um ásættanlegan biðtíma. En sá tími er, eins og ég gat um áðan, þrír mánuðir vegna skurðaðgerða. Ég mun beita mér áfram fyrir eflingu þeirra sjúkrastofnana sem hafa verið í þeim aðgerðum svo þær geti framkvæmt nauðsynlegar skurðaðgerðir innan ásættanlegs biðtíma í sem flestum tilfellum, en í þeim tilfellum sem slíkt næst ekki og biðtími fer yfir skilgreind mörk geta sjúklingar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sótt um að fá greiddan kostnað við aðgerð sem framkvæmd er erlendis. Ég tel afar mikilvægt að slíkum málum fækki og að sem flest mál séu þannig að hægt sé að afgreiða þau innan hins almenna fyrirkomulags með ásættanlegum biðtíma. Það er í raun og veru verkefni okkar og ég hef góðar vonir um (Forseti hringir.) að við náum utan um þetta mikilvæga mál.