149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

ráðstafanir vegna biðlista eftir aðgerðum.

353. mál
[17:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir áhugaverð svör. Það er mikilvægt að við gleymum okkur ekki í bölmóðnum. Við höfum náð árangri á ákveðnum sviðum og það er gleðilegt og við eigum að halda því á lofti. Við höfum hins vegar ekki náð að vinna niður biðlista í liðskiptaaðgerðum en það er eitthvað sem kemur engum á óvart. Þetta er þróunin í öllum okkar næstu löndum og þörfin fyrir að skipta út liðum vex. Það er auðvitað vegna þess hvernig við lifum. Við borðum of mikið, þyngjumst of mikið, liðirnir slitna, stoðkerfið bilar. Það er skammt öfganna á milli og þess eru dæmi að þeir sem hreyfa sig of mikið slíta líka liðum og þurfa ungir að árum að fá nýja liði.

En ég vil nefna hér að McKinsey benti á það í skýrslu sinni fyrir tveimur árum að ekki væri ráðlegt að setja inn aukið fé í heilbrigðiskerfið nema við hefðum markmiðin á hreinu. Við vitum auðvitað hvað hver liðskiptaaðgerð kostar. Við vitum hvað hún kostar í útlöndum, við vitum hvað hún kostar í einkageiranum á Íslandi og við vitum hvað hún kostar á sjúkrahúsunum hér. Ég spyr því ráðherra: Hefur verið gerð kostnaðargreining á því, einhver framtíðarspá um það hvað við þurfum að leggja í kerfið svo það geti afkastað þeirri þörf sem fyrirsjáanleg er í heilbrigðisþjónustunni, t.d. á næstu tveimur áratugum? Ef svo er, hvernig verður undirbúningi fyrir það háttað? Maður sér kannski ekki merki um að menn geri ráð fyrir þeirri aukningu, t.d. í liðskiptaaðgerðum, sem menn spá að vaxi gríðarlega á næstu árum, við sjáum það ekki í fjármálaáætlun.