149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

ráðstafanir vegna biðlista eftir aðgerðum.

353. mál
[17:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja að það er auðvitað mikilvægt, og ég gat þess ekki í mínu fyrra svari, að ferli mála þar sem réttur skapast til að sækja þjónustu til útlanda sé skoðað með það fyrir augum að hagsmunir sjúklinga séu sem best tryggðir og að heilbrigðisþjónustan sem veita ber á Íslandi samkvæmt lögum raskist ekki. Ég tek undir það sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson segir um mikilvægi þess að fela stofnunum að vinna verklag varðandi biðlistana.

Ég tek líka undir það sem hv. fyrirspyrjandi Guðjón Brjánsson nefndi og fór ekkert yfir í mínu fyrra svari, þ.e. hversu mikið af þessu viðfangsefni er í raun og veru lýðheilsuverkefni, þ.e. áhersla á það að við þurfum að bera meiri ábyrgð á heilsu okkar á fyrri stigum með því að hreyfa okkur, borða hollt o.s.frv. Á dögunum var viðtal við danskan skipulagsfræðing sem hefur verið mótandi í skipulagi Kaupmannahafnar og er nýbúið að þýða lykilrit hans yfir á íslensku. Hann talar um að úthverfaskipulag valdi því beinlínis að það dragi úr hreyfingu og að fólk sitji meira og hreyfi sig of lítið. 10.000 skref á dag, sagði hann að væri mikilvægt. Þetta hangir allt saman, þannig að lífsstíll er auðvitað mikilvægur þáttur hér.

Af því að hv. þingmaður spyr hvað við þurfum að leggja inn í framtíðina er ég alveg sammála hv. þingmanni með það að þetta hvílir allt saman á mikilvægi þess að við séum með heilbrigðisstefnu, þ.e. að fyrir liggi hvað við ætlum að gera, hvað heilsugæslan getur gert og gerir, hvað sjúkrahúsin — þá er ég að tala um Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri — gera og síðan hvaða annars stigs þjónustu við viljum hafa og hvað af henni er veitt af opinberum aðilum, þar með talið heilbrigðisstofnunum úti um land og öðrum þeim stofnunum. Síðan þarf ríkið, þ.e. við, að ákveða á hverju við viljum festa kaup eða þjónustu umfram það. Það verður að vera í samræmi við þarfir sjúklinga en ekki í samræmi við þarfir þeirra sem selja þá þjónustu.