149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

rafvæðing hafna.

372. mál
[17:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Förum úr heilbrigðismálunum í umhverfis- og orkumál. Það er jú þannig að umræður og kannanir um rafvæðingu hafna verða æ umfangsmeiri með tímanum og af augljósum ástæðum. Rafvæðingin er mikilvægt loftslagsmál vegna minni losunar gróðurhúsalofttegunda en það er líka af henni efnahagslegur ávinningur, þ.e. sala á raforku til erlendra aðila að hluta til og auðvitað sparnaður í innflutningi á jarðefnaeldsneyti.

Það eru allmargar hafnir nú sem geta þegar séð minni skipum fyrir raforku. Það er sem sagt í gegnum lágspennta dreifikerfið og ég nefni Húsavíkurhöfn gjarnan sem dæmi. Þar eru jú örfá skip, a.m.k. tvö, sem þurfa raforku vegna þess að þau eru rafknúin að hluta. Svo eru það stóru skipin, flutningaskip og farþegaskip og jafnvel gríðarlega stór skemmtiferðaskip, sem okkur vantar aðstöðuna fyrir að mestu og þá erum við að tala um háspennta flutningskerfið.

Þessi rafvæðing felst fyrst og fremst í því, ef við lítum fyrst á lágspennta kerfið, að hlaða rafhlöður báta eða láta litla ljósavélar þagna ef um er að ræða skip sem eru eingöngu knúin jarðefnaeldsneyti. Þetta eru bátar og minni skip. Svo er það aftur orka til skipa sem liggja tímabundið við bryggju og eru flutningaskip eða farþegaskip, eins og ég sagði, og þar á þetta einkum við um 10 til 15 stærstu hafnir landsins og þá þarf jú háspennta kerfið að koma til sögunnar. Aflþörfin í þessum tilvikum er mjög misjöfn. Hún er frá því að vera einhver kílóvött yfir í 1, 2 megavött og alveg upp í 10, 15, 20, segja mér tölur sem ég reyndar dreg í efa. Ég trúi því varla að eitt skemmtiferðaskip þurfi sömu orku og öll Akureyri. Það þarf kannski að fara í saumana á því, ég veit það ekki.

En spurningar mínar til hæstv. ráðherra eru tvær, annars vegar um það hver aflþörfin er fyrir þessar aðalhafnir í ljósi kannana sem gerðar hafa verið. Í öðru lagi hver staðan er heilt yfir varðandi rafvæðingu hafnanna og hvað muni fyrirsjáanlega gerast næstu árin í boði ríkisstjórnarinnar.