149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

áfangastaðaáætlanir fyrir landshlutana.

406. mál
[17:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Herra forseti. Í nóvember síðastliðnum voru áfangastaðaáætlanir landshlutanna kynntar með pompi og prakt. Um er að ræða metnaðarfullt verkefni þar sem tekið er á skipulagi, framtíðarsýn og markaðssetningu svæðanna. Eins og fram kemur á heimasíðu Ferðamálastofu er markmiðið með áfangastaðaáætlun að heimamenn setji sér framtíðarsýn og móti sinn áfangastað, ákveði hvert skuli stýra ferðamönnum og hvernig hægt sé að fá ferðamenn til að dvelja lengur á áfangastöðum svo ferðaþjónustan blómstri.

Áfangastaðaáætlanir hafa þann kost að þar er horft heildstætt á áfangastaði frekar en að horfa eingöngu á markaðssetninguna. Þannig er horft til upplifunar, íbúa og langtímasjálfbærni áfangastaðarins jafnt sem upplifun ferðamanna. Eins og kemur fram í áfangastaðaáætlun Austurlands eru áfangastaðaáætlanir tól sem gerir íbúum kleift að ákveða hvernig ferðaþjónustan leggur sitt af mörkum til samfélagsins og hvaða skref eigi að taka til að ná ásættanlegum árangri. Áfangastaðaáætlanir landshlutanna eru því auðvitað hið besta mál, en eins og við vitum er ekki nóg hafa góða áætlun, það þarf að fylgja henni eftir með innleiðingu og sömuleiðis þarf að vera skýrt hver hefur það hlutverk að fylgja henni eftir og svo þarf að tryggja getu til þess að fylgja henni eftir.

Talað hefur verið um möguleikann á að stofna svokallaðar áfangastaðastofur, eða á ensku „Destination management organisations“, sem hefðu þá það hlutverk að framfylgja áfangastaðaáætlununum. Markaðsstofur landshlutanna eru vissulega ágætur vísir að því en ljóst er að þær hafa engan veginn bolmagn í verkefnið eins og stendur auk þess sem fyrir liggur að kostnaður við að uppfæra áætlanirnar og við skýrslugerð verður töluverður. Það mun líka augljóslega kosta enn meira að framfylgja og innleiða þau verkefni sem valin hafa verið.

Það er mikilvægt að valdefla stofnanir landshlutanna þegar kemur að uppbyggingu áfangastaða og er það mín skoðun að hér stöndum við sannarlega frammi fyrir tækifæri til þess að byggja markaðsstofurnar enn frekar upp og festa þær í sessi sem áfangastaðastofur. Þá er mikilvægt að tengja þessi verkefni inn í sóknaráætlanir landshlutanna, en í raun eru það enn sem komið er ótengt nema góður vilji til samstarfs sé til staðar.

Ég spyr því: Hvað svo? Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir framkvæmd og innleiðingu áfangastaðaáætlana fyrir landshlutana? Mun ráðuneytið koma að framkvæmd verkefna og tryggja að þau verða að veruleika? Og ef ekki, hver þá? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að fylgja eftir forgangsröðun áfangastaðaáætlana landshluta við aðra stefnumörkun, svo sem hvað snertir samgönguáætlun?

Því miður er ekki að sjá í þeirri samgönguáætlun sem nú er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd að áherslur landshlutanna í áfangastaðaáætlunum hafi verið hafðar til hliðsjónar þótt enn sé vissulega tækifæri til þess í umfjöllun þingsins.