149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

áfangastaðaáætlanir fyrir landshlutana.

406. mál
[17:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og sömuleiðis hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Mig langar að byrja á að grípa það sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á um kynninguna. Ég held að kynningin sé alveg sérstaklega mikilvæg, ekki aðeins innan landshlutanna og innan ferðaþjónustunnar heldur ekki síður og eiginlega fyrst og fremst gagnvart stofnunum ríkisins og þeim sem vinna að heildarstefnumótun í ferðaþjónustu fyrir landið.

Hitt sem mig langaði að koma inn á og var kannski það eina sem hæstv. ráðherra svaraði ekki alveg skýrt er varðandi stöðu markaðsstofanna og þróun þeirra. Eins og hæstv. ráðherra nefndi í svari sínu hafa þær ekki haft neina lögformlega stöðu, enda byrjuðu þær í rauninni sem eins konar grasrótarsamtök og hafa síðan reyndar flestar ef ekki allar verið teknar yfir að einhverju leyti af sveitarfélögunum. Starfið sem þær sinna er samt sem áður gríðarlega mikilvægt. Ég held að mjög mikilvægt sé að veita þeim einhvers konar lögformlega stöðu og þess vegna spyr ég ráðherra aftur og væri gott að heyra hvort hún telji mögulega leið til þess að horfa til þeirra og eflingar þeirra í tengslum við þessar áfangastaðastofur eða einhvers konar útfærslu á því.