149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[22:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna sem er mjög mikilvæg. Meiri hlutinn leitast við að svara þessu í áliti sínu. Við teljum einmitt mikilvægt að horft sé til þessara atriða þegar stofnun eða heimili tekur að sér búsetu yngri einstaklings, en ekki síður þegar við erum að tala um dagdvalarþjónustu fyrir yngri einstaklinga. Sem betur fer höfum við nú þegar nokkra reynslu af rekstri dagdvalar fyrir einstaklinga í yngri kantinum og það má leita í þá smiðju. Til að mynda eru til dagdvalir fyrir einstaklinga sem eru með taugasjúkdóma án þess að vera með heilabilun. Það hefur gefist ágætlega. Sú reynsla og þekking er til innan þessa apparats og er mikilvægt að horfa til þess. En hins vegar er það þannig, alla vega að mínu mati, að þegar horft er til þessa úrræðis eins og algengast er að það sé notað, það er fyrir minnisskerta einstaklinga, er kannski algengara en ekki að yngri einstaklinga séu með. Þá eru þarfirnar kannski ekki eins ólíkar og þegar við erum með miklu yngri einstaklinga sem eru fyrst og fremst með einhverja taugasjúkdóma. En það er mjög þörf ábending hjá hv. þingmanni að það þarf að horfa til þessara þátta. Það er mikilvægt að starfsfólk á þessum stöðum sé meðvitað. Eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans teljum við a.m.k. að ráðuneytið og Sjúkratryggingar eigi að horfa til þess að það geti þurft að bregðast sérstaklega við, til að mynda í fjárframlögum til þessara stofnana eða staða til að mæta þessum þörfum.