149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[22:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur líklega ekki mörgum á óvart að ég er ekki sammála áliti minni hluta velferðarnefndar þó að vissulega séu þar ágætir punktar inni á milli. Það er mikilvægt í upphafi andsvarsins að benda á að ég met þann hug sem kemur fram í álitinu, auðvitað er það ekki markmið að auka á stofnanaþjónustu. Ég held að allir hv. þingmenn hljóti að vera sammála því sjónarmiði. Ég á bágt með að trúa öðru, skulum við a.m.k. segja. Mig langar að ítreka sem ég nefndi í ræðu minni áðan sem er að þetta frumvarp opnar í sjálfu sér ekki á heimild fyrir yngri en 67 ára til að búa á hjúkrunarheimilum eða stofnunum yfirleitt. Það er aðeins verið að bæta úr þessum skavanka sem var í lögunum um að heimildin næði ekki til dvalarrýma. Það er fyrst og fremst verið að gera það. Ég ítreka líka að við erum sem betur fer að tala um afar fáa einstaklinga.

Þingmaðurinn nefndi réttilega áhyggjur sem er lýst, kannski sérstaklega í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem við tökum aðeins á í meirihlutaálitinu, en aðrir umsagnaraðilar við þennan umgang eru ekki neitt sérstaklega áhyggjufullir. Þeir benda að vísu á nokkur atriði og mig langar að inna þingmanninn eftir því hvort hún telji að það samráð sem var haft við umrædda aðila í sumar hafi breytt afstöðu þeirra til málsins að einhverju leyti.