149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði síðast í morgun að kaupmáttur eldri borgara og öryrkja hefði stórlega aukist. Einnig talaði hann um að enginn gæti stutt skattalækkanir. Sjálfstæðisflokkurinn talar alltaf um að það þurfi að lækka skattana. Ég er viss um að hver einasti þingmaður hérna inni er tilbúinn að styðja við það að færa tímavélina aftur til 1988 þegar lífeyrislaun og lág laun voru skattlaus. Það er skrýtið að halda því fram á sama tíma og gengið hefur sigið og hækkanir dunið á eldri borgurum og öryrkjum að kaupmáttur þeirra sé í góðu lagi. Kauphækkun sem á að koma um næstu áramót er heil 3,6%. Það dugir ekki til að auka kaupmátt. Það dugir ekki einu sinni til að halda í við hækkanir á verðlagi og öðru sem hafa dunið yfir. Hið rétta væri, og hefur verið ítrekað hér, að hækka þessa prósentu um 9,6%. Launaskriðið á þessu tímabili er 6% og það skýrt í lögum að það á að fylgja launaskriði. Síðan getum við bent á það að til öryrkja sem hefur 113.000 kr. úr lífeyrissjóði skila sér 20.000 kr. 93.000 kr. af þessu eru skattar og skerðingar. Á sama tíma erum við að tala um lögþvingaðan eignavarinn sparnað sem er verið að ræna af þeim sem síst skyldi.