149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Síðastliðinn fimmtudag féllu tveir dómar í Hæstarétti sem setja strik í reikninginn í málflutningi ríkisstjórnarinnar í þeirri veiðigjaldaumræðu sem hefur átt sér stað hér. Það voru þegar sterk rök fyrir frestun málsins á grundvelli jákvæðra áhrifa gengisbreytinga á útflutningsgreinar, vegna skorts á samráði við stjórnarandstöðuna og vegna lækkunar fjárveitinga til heilbrigðis- og velferðargeirans á milli fjárlagaumræðna. Mikið hefur verið rætt um það en því miður fyrir daufum eyrum ríkisstjórnarinnar. Nú hafa þessir dómar bæst í sarpinn og þau rök sem þar eru fyrir frestun vega ekki minna en fyrri rökin. Mig langar til að nefna líka að við höfum enn þá tækifæri til að bæta í lögin brýningu á eignarrétti þjóðarinnar, brýningu á því að það er fólkið í landinu sem á þessa auðlind.

Það er enn þá tækifæri til að bæta í lögin tímabindingu á þeirri heimild sem útgerðarfyrirtæki hafa, heimild til 20–25 ára, (Forseti hringir.) eins og velflestir flokkar á þingi hafa mælt fyrir á einum eða öðrum tíma. Það er enn þá tækifæri til að laga þessa hnökra.