149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka atvinnuveganefnd fyrir mjög góða vinnu og formanni hennar sérstaklega fyrir verkstjórnina á því vandaverki sem liggur fyrir þinginu að afgreiða í þokkalega góðri sátt að mínu mati.

Hér er kallað eftir upplýsingum og spurt m.a. að því, vegna þess að gjaldhlutfallið er óbreytt, hvaðan koma þessi 33%? Ef menn lesa gildandi lög, 9. gr. núverandi laga um veiðigjöld, er reiknigrunnur botnfisks 33% af gjaldstofni, fyrir uppsjávarfisk 33% af gjaldstofni. Menn skulu bara lesa og þá kemur samfellan í það sem hér er lagt fram.

Þetta mál er til stórra bóta. Það er verið að færa álagninguna nær í tíma þannig að hún endurspegli afkomu greinarinnar betur en hingað til hefur verið gert. Það kann vel að vera að þetta leiði til lækkunar á veiðigjöldum. Þá endurspeglar það verri afkomu greinarinnar. Ég vona svo sannarlega að veiðigjöldin (Forseti hringir.) hækki vegna þess að það mun þá bera vott um það að þessi grundvallaratvinnugrein býr við betri hag en hún hefur gert hingað til.