149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Þá lýkur þessu máli. Það hefði mátt eiga sér stað talsvert betra samtal og samráð um það. Hv. stjórnarþingmenn koma hér upp hver á eftir öðrum og hreykja sér af fjöldamörgum fundum og fjöldamörgum gestum sem tóku þátt í meðferð málsins. Það er alveg rétt og við kunnum þeim góðar þakkir fyrir að koma og ræða við okkur sín sjónarmið um þetta mál, öllum þeim gestum sem komu fyrir nefndina, en það sem er líka mikilvægt í samráði er að hlusta og hafa eitthvert vit á því að bregðast við og kannski byrja á því að spyrja í upphafi hvert við eigum að stefna. Því skal haldið til haga að þjóðin var ekki spurð hversu hátt hlutfall hún vildi fá af arði auðlindar sinnar. Ég veit ekki hvort sjómenn hafi verið spurðir hvort þeim líkaði að vinnslan yrði tekin út úr gjaldstofni veiðigjalds á samþættum útgerðum. Þegar athugasemdir um þetta komu fram sá ég ekki betur en að það hafi einmitt ekkert verið hlustað. Í samráði þarf slíka hlustun og hún átti sér ekki stað í þessu máli.