149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

almannatryggingar.

12. mál
[15:41]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er mikið réttlætismál sem 1. flutningsmaður, Silja Dögg Gunnarsdóttir, leggur fram og við Framsóknarmenn flykkjumst að baki henni. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þann hóp barna sem vegna sérstakra aðstæðna nýtur ekki framfærslu tveggja foreldra. Í greinargerð með frumvarpinu er talað um að á Íslandi séu um 900 börn sem hafa misst foreldri. Þá er tekið fram að einstæðir foreldrar geti sótt um barnalífeyri í stað meðlags ef ekki er hægt að feðra barn vegna sérstakra aðstæðna. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þennan hóp barna og einstæðra foreldra sem ekki geta sótt sérstök framlög til meðlagsskylds foreldris á grundvelli barnalaga.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. velferðarnefnd fyrir samvinnuna um þetta mál sem hefur skilað því að við höfum öll sem eitt fylgt því úr garði hingað í atkvæðagreiðslu.