149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

ófrjósemisaðgerðir.

435. mál
[22:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ófrjósemisaðgerðir. Forsaga þessa máls er sú sama og forsaga frumvarps til laga um þungunarrof sem rætt var áðan. Heilbrigðisráðherra skipaði nefnd sem ætlað var að vinna að heildarendurskoðun laga nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Nefndin skilaði ráðherra skýrslu í nóvember 2016 og lagði m.a. til að lögunum yrði skipt upp. Taldi nefndin að ekki ætti að fjalla um þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir í sömu lögum þar sem um mjög óskyldar aðgerðir væri að ræða og ekki stæðu rök til að fjallað væri um þær í sömu lögum. Mæli ég því fyrir frumvarpi til sérlaga um ófrjósemisaðgerðir.

Tillögur nefndarinnar voru þrjár, að lækka aldurstakmark ófrjósemisaðgerða niður í 18 ár til samræmis við gildandi lögræðislög, að einungis verði heimilt að framkvæma ófrjósemisaðgerð á barni af læknisfræðilegum ástæðum ef líf eða heilsu stúlku væri stefnt í hættu með þungun eða fæðingu eða ef einsýnt væri að barn viðkomandi yrði alvarlega vanskapnað og/eða lífshættulega veikt og í þriðja lagi að afmá alla mismunun í lögum gagnvart fötluðum einstaklingum.

Virðulegi forseti. Til að varpa stuttlega ljósi á sögulegt samhengi þessa máls langar mig að fjalla aðeins um þau lög sem gilt hafa hér á landi um ófrjósemisaðgerðir fram að þessu. Með lögum nr. 38/1935, sem voru til umræðu fyrr í dag, voru fyrstu lögin um ófrjósemisaðgerðir sett. Lögin heimiluðu m.a. lækni, ef nauðsyn krefði, að gera konu ófrjóa ef hún óskaði þess. Við mat á þeirri nauðsyn var heimilt að taka tillit til félagslegra aðstæðna. Þær þröngu heimildir til ófrjósemisaðgerðar af félagslegum ástæðum byggðu m.a. á því að kona hefði átt mörg börn með stuttu millibili. Árið 1938 voru sett lög nr. 16, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki er koma eigi í veg fyrir að það auki kyn sitt. Í lögunum voru veittar heimildir fyrir afkynjunum, vönun og þungunarrofi. Árið 1975 voru gildandi lög samþykkt á Alþingi.

Í III. kafla laganna er fjallað sérstaklega um ófrjósemisaðgerðir. Samkvæmt lögunum er ófrjósemisaðgerð heimil óski einstaklingur eftir því, ef viðkomandi er fullra 25 ára og óskar eindregið og að vel íhuguðu máli eftir því að komið verði í veg fyrir að hann eða hún auki kyn sitt og ef engar læknisfræðilegar ástæður eru til staðar sem mæla gegn aðgerð. Þá er jafnframt heimilt að framkvæma ófrjósemisaðgerð ef einstaklingur er ekki fullra 25 ára, ef ætla má að heilsu konu sé hætta búin á meðgöngu og fæðingu, ef fæðing og forsjá barna yrði of mikið álag fyrir hana eða hann með hliðsjón af lífskjörum fjölskyldunnar og af öðrum ástæðum, ef sjúkdómur, líkamlegur eða geðrænn, dregur alvarlegum úr getu hennar eða hans til að annast og ala upp börn og þegar ætla má að barn viðkomandi eigi hættu á fæðast vanskapað eða haldið alvarlegum sjúkdómi vegna erfða eða sköddunar á fósturstigi.

Ef einstaklingur hefur ekki náð tilskildum aldri þarf að liggja fyrir rökstudd greinargerð tveggja lækna eða læknis og félagsráðgjafa þegar beiðni byggist á félagslegum ástæðum og skal annar læknanna vera sá sérfræðingur sem framkvæmir aðgerðina ef einstaklingur hefur náð 25 ára aldri en er varanlega ófær um að gera sér grein fyrir afleiðingum aðgerðarinnar vegna tilgreindra ástæðna.

Virðulegi forseti. Ísland hefur nú fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ein af skuldbindingum Íslands sem aðildarríkis að samningnum er að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að gildandi lögum, reglum, venjum eða starfsháttum sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki verði breytt eða þau afnumin.

Í þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi um fullgildingu samningsins var fjallað um lög sem ættu eftir að fá þinglega meðferð vegna ákvæða sem ekki stæðust samninginn. Eru gildandi lög um þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir þar tiltekin og vísast sérstaklega til ákvæðis 23. og 25. gr. samningsins. Í 23. gr. er fjallað um virðingu fyrir heimili og fjölskyldu, en þar kemur m.a. fram réttur fatlaðs fólks til að stofna til sambands og ganga í hjónaband, en einnig er viðurkenndur réttur þeirra til að halda frjósemi sinni til jafns við aðra. Í 25. gr. er fjallað um heilsu, en þar er viðurkenndur réttur fatlaðs fólks til að njóta góðrar heilsu að hæsta marki eins og frekast er unnt án mismununar vegna fötlunar, en einnig að aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af kyni.

Í greininni er aðildarríkjum einnig gert skylt að sjá fötluðu fólki fyrir heilsugæslu, m.a. með tilliti til kyn- og frjósemisheilbrigðis, og er lögð sérstök áhersla á að fatlað fólk hafi aðgang að sömu þjónustu og aðrir og sú krafa gerð til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, m.a. á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er lagt fram er skrifað með þau sjónarmið að leiðarljósi. Enn fremur er lögð áhersla á að frumvarpið samrýmist ákvæði 8. gr. samningsins, en þar er fjallað um skuldbindingar ríkja til að auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn fatlaðs fólks og til að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki.

Lít ég svo á að ákvæði gildandi laga standist ekki kröfur samningsins að því leyti og í þeim gæti fordóma um fatlað fólk sem séu til þess fallnir að viðhalda staðalímyndum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki. Einkum á ég við ákvæði laganna þar sem veittar eru rýmri heimildir til ófrjósemisaðgerða á einstaklingum vegna sjúkdóms, líkamlegs eða geðræns, eða eins og fram kemur í 22. gr. laganna, ef viðkomandi er vegna geðsjúkdóms, mikils greindarskorts eða annarra geðtruflana, varanlega ófær um að gera sér grein fyrir afleiðingum aðgerðarinnar. Legg ég því til í frumvarpinu að ófrjósemisaðgerð verði einungis heimil ef einstaklingur óskar eftir slíkri aðgerð hafi hann náð 18 ára aldri. Þannig er ætlunin að verði frumvarpið að lögum verði mannréttindi og mannhelgi einstaklinga í hvívetna tryggð þegar ófrjósemisaðgerðir eru framkvæmdar.

Eina undanþágan sem lögð er til er í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins en þar er veitt heimild til að framkvæma ófrjósemisaðgerð á einstaklingi sem er ólögráða fyrir æsku sakir þegar ætla má að frjósemi viðkomandi hafi alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklingsins og sett eru skilyrði um staðfestingu tveggja lækna um slíkt sem og samþykkt sérstaklega skipaðs lögráðamanns. Lagt er til að áður en ófrjósemisaðgerð er framkvæmd hljóti einstaklingur fræðslu um í hverju aðgerð er fólgin, áhættur samfara aðgerðinni og afleiðingar hennar. Þá er lagt til að einungis læknar með sérfræðiviðurkenningu í almennum skurðlækningum, kvensjúkdómalækningum eða þvagfæraskurðlækningum megi framkvæma ófrjósemisaðgerðir og að einungis megi framkvæma ófrjósemisaðgerð á heilbrigðisstofnunum eða starfsstöðvum lækna sem landlæknir hefur eftirlit með. Með því ákvæði er veitt rýmri heimild en finna má í gildandi lögum þar sem einungis er heimilt að framkvæma ófrjósemisaðgerð á sjúkrahúsum. Þá er lagt til að gildandi greiðslufyrirkomulag haldist en ófrjósemisaðgerðir eru gjaldfrjálsar samkvæmt gildandi lögum og mun það fyrirkomulag haldast verði frumvarpið að lögum.

Virðulegi forseti. Við upphaf vinnu nefndar um heildarendurskoðun laganna var óskað eftir athugasemdum og tillögum um breytingar á lögunum. Eru þær umsagnir sem bárust raktar í frumvarpinu en frumvarpið var samið með þær athugasemdir sem þar komu fram að leiðarljósi. Frumvarpið var einnig birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins og barst ein umsögn. Umsögnin var frá Landssamtökunum Þroskahjálp en samtökin lögðu áherslu á að í frumvarpinu yrði tryggður réttur fatlaðs fólks og alveg sérstaklega einstaklinga með þroskahömlun eða skyldar raskanir til að fá notið óskerts gerhæfis varðandi allt það sem fjallað væri um í frumvarpinu og fá örugglega þann stuðning sem viðkomandi þyrfti til að geta nýtt gerhæfi sitt. Í ljósi markmiðs og efnis frumvarpsins var ekki talin ástæða til að gera breytingar á frumvarpinu vegna umsagnarinnar.

Virðulegi forseti. Frumvarpinu er ætlað að tryggja öllum lögráða einstaklingum sjálfsforræði til að taka ákvörðun um ófrjósemisaðgerð. Með frumvarpinu er jafnframt verið að færa aldurstakmörk umsækjanda um ófrjósemisaðgerð til samræmis við ákvæði lögræðislaga. Ekki er þó talið að fjöldi ófrjósemisaðgerða aukist verði frumvarpið að lögum og byggist sú tilgáta fyrst og fremst á því að flestir sem undirgangast ófrjósemisaðgerð eru á aldrinum 35–44 ára.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Sjálfsforræði lögráða einstaklinga, upplýst samþykki einstaklingsins, fræðsla, gæði og öryggi þjónustunnar og gjaldfrelsi eru tryggð með því frumvarpi sem hér er lagt fram í stað forræðishyggju og heimilda sem byggja á gamaldags sjónarmiðum um að koma í veg fyrir að tilteknir hópar samfélagsins fái að njóta sömu réttinda til kyn- og frjósemiheilbrigðis og aðrir.

Ég leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til velferðarnefndar og til 2. umr.