149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Í fréttum er eldingarstormur sem gekk yfir í gær, auk fjölda erfiðra og tilfinningaþrunginna mála og má taka undir þau orð sem hér hafa fallið hjá hv. þingmönnum. Í slíkum fjölmiðlastormi er hætta á að mikilvæg mál sem eiga eftir að hafa mikil áhrif á samfélagið í framtíðinni fái ekki þá athygli sem þau verðskulda heldur týnist í dægurþrasinu.

Dæmi um slíka frétt birtist í gær í dálknum 200 mílum á mbl.is. Það fór lítið fyrir henni en í henni var fjallað um skýrslu sem sjávarútvegsráðherra ætlaði að leggja fram í október sl. Ég legg áherslu á sagnorðið „ætlaði“.

Fréttin fjallaði sem sagt um að ný skýrsla um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða væri ekki enn komin fram en mun vera von á henni um áramót, tveimur til þremur mánuðum síðar en áætlað var, sem er raunar aðeins örlitlu lengri tími en beðið hefur verið eftir fiskeldisfrumvarpi hæstv. ráðherra sem boðað var samkvæmt þingmálaskrá í nóvember.

Herra forseti. Skýrslunni er ætlað að leggja mat á þjóðhagslegt mikilvægi hvalveiða en ég leyfi mér að óttast að skýrslan nái ekki utan um það tap sem íslenskt þjóðfélag verður fyrir vegna hvalveiða, tap sem erfitt er að mæla því að það felst m.a. í viðskiptatækifærum sem aldrei urðu en hefðu t.d. getað skapað íslensku samfélagi auknar tekjur fyrir afurðir sínar á erlendum mörkuðum, tækifæri sem ekki urðu að veruleika vegna hagsmuna eins fyrirtækis sem neitar að horfast í augu við þá staðreynd að hvalveiðar njóta álíka skilnings umheimsins og veiðar á pandabjörnum myndu gera í heimalandi okkar. En hafið ekki áhyggjur, kæri þingheimur, það er verið að gera skýrslu, sem skiptir reyndar kannski ekki máli því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur þegar boðað óbreytta stefnu í hvalveiðum í svari við fyrirspurn hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

Herra forseti. Er ekki kominn tími til að við hvílum okkur á hvalveiðum?