149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

umboðsmaður barna.

156. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 83/1994, um umboðsmann barna.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund ýmsa gesti eins og getið er um í nefndarálitinu, en mig langar sérstaklega, herra forseti, að nefna þau ungmenni sem komu á fund nefndarinnar, þau Ingu Huld Ármann og Sólrúnu Elínu Freygarðsdóttur frá ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, Auði Rán Pálsdóttur og Sigurjónu Hauksdóttur frá ungmennaráði UNICEF og Kolbein Þorsteinsson frá ungmennaráði Barnaheilla. Ég held að ég tali fyrir munn allrar velferðarnefndar þegar ég segi að það var sérstaklega ánægjulegt að hitta þessi ungmenni og fá tækifæri til að skiptast á skoðunum við þau og heyra þeirra sjónarmið á það hvernig stjórnkerfið kæmi að málum barna og með hvaða hætti mætti bæta það. Þetta var því alveg sérstaklega ánægjulegur fundur í hv. velferðarnefnd.

Umsagnir bárust frá Barnaheillum, Landssambandi eldri borgara, samtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu er markmiðið að skýra frekar hlutverk umboðsmanns barna í samræmi við þær áherslur sem lagðar eru á réttindi barna, m.a. í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem lúta að réttindum barna. Í samræmi við þær áherslur er lagt til að lögfest verði ákvæði um barnaþing sem svo hefur verið nefnt þar sem farið verði yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins. Hlutverk ráðgjafarhóps umboðsmanns barna er einnig lögfest.

Lögin um umboðsmann barna eru lítið breytt frá því að þau voru sett 1994, en á sama tíma hefur heilmikið breyst í samfélaginu og viðhorf þess til barna og ungmenna breyst verulega, einkum og sér í lagi með lögfestingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2013. Með þeim breytingum sem felast í frumvarpinu er lagður grunnur að því að embættið verði öflugri og virkari málsvari barna. Gert er ráð fyrir að kostnaður við fyrirhugaðar breytingar verði um 24 millj. kr. á ári en það er gert ráð fyrir þeirri upphæð í fjárlagafrumvarpinu. (Gripið fram í.) Fjárlögum, já, skulum við segja, (Gripið fram í: Búið.) það er meira að segja búið að samþykkja fjárlög. Það er náttúrlega, herra forseti, svo óvenjulegt hvað gekk vel að klára fjárlög. Þarna ætti náttúrlega að standa „í fjárlögum“.

Við umfjöllun nefndarinnar var bent á breytingar sem gerðar voru í frumvarpinu eftir birtingu þess í samráðsgátt Stjórnarráðsins eftir ábendingar um mikilvægi þess að embætti liti sérstaklega til réttinda fatlaðra barna og var vísun þess efnis bætt við í athugasemd um 1. gr. frumvarpsins. Umsagnaraðilar bentu einnig á þetta og nefndu sérstaklega að taka yrði tillit til hópa barna sem einhverra hluta vegna væru berskjaldaðir eða ættu undir högg að sækja af einhverjum öðrum orsökum. Nefndin tekur undir það. Nefndin tekur einnig undir mikilvægi þess að embættið sinni þjónustu þar sem þörfin er mest og minnir jafnframt á að áherslur af þessu tagi eru í fullu samræmi við ákvæði barnasáttmálans.

Í umsögnum kom almennt fram stuðningur við málið. Það voru margir umsagnaraðilar sem lögðu á það áherslu að embætti umboðsmanns barna væri styrkt. Þá var því sérstaklega fagnað hversu sýnilegur barnasáttmálinn væri í þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér, t.d. með því að lögfesta ráðgjafarhópinn, sem ég nefndi áðan, en hann hefur í raun starfað lengi við embættið. Nú er hann festur í sessi með lagabreytingu.

Eitt af þeim nýju verkefnum sem umboðsmanni er falið með frumvarpinu er öflun og miðlun gagna um stöðu barna á Íslandi. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að þetta væri mjög mikilvægt þar sem oft hefur sárlega skort upplýsingar. Jafnframt kom fram að embættið og Hagstofan hefðu í vor undirritað viljayfirlýsingu um að hefja undirbúning þessarar vinnslu.

Barnaþing er annað nýtt verkefni, eins og ég nefndi áðan, þar sem verður farið yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum. Þar er gert ráð fyrir virkri þátttöku barna í skipulagningu og framkvæmd. Þar gefst mikilvægt tækifæri til samræðu barna og valdhafa á hverjum tíma. Nefndin beinir því sérstaklega til yfirstjórnar Alþingis að taka tillit til tímasetningar barnaþingsins við skipulagningu starfsáætlunar þannig að þingmönnum gefist kostur á að sækja þingið.

Við umfjöllun nefndarinnar var jafnframt bent á hversu mikilvægt það væri að Alþingi hefði reglulegt samráð við börn. Fulltrúar ungmennanna komu einmitt sérstaklega inn á þetta, einkum þegar um er að ræða málefni sem snerta þau sérstaklega. Þá var einnig talað um að vefsíður þingsins væru ekki alltaf sérlega aðgengilegar fyrir börn og jafnvel velt upp þeirri hugmynd hvort ekki mætti huga að því að bjóða kannski upp á sérstakar barna- eða ungmennavænar útgáfur af vefsíðunni þannig að börn ættu auðveldara með að átta sig á þeim málum sem til umfjöllunar væru, þá kannski einkum og sér í lagi þeim málefnum sem fjalla um börn sérstaklega.

Nefndin leggur til breytingu á 5. gr. frumvarpsins svo að í 5. gr. laga um umboðsmann barna verði vísað til e-liðar 3. mgr. 3. gr. Þá er einnig lögð til breyting á orðalagi 2. efnismálsgreinar 6. gr. þannig að við skýrslu um stöðu barna sé skýrar áréttað að höfð skuli hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem orðast eins og stendur í nefndarálitinu.

Hv. þm. Ásmundur Friðriksson og Guðmundur Ingi Kristinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Halldóra Mogensen var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið í samræmi við heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk álitinu. Undir álitið rita því Halldóra Mogensen, formaður nefndarinnar, Andrés Ingi Jónsson, framsögumaður, Ólafur Þór Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Vilhjálmur Árnason, Alex B. Stefánsson og Una María Óskarsdóttir.