149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[17:35]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir yfirferðina á nefndarálitinu en finnst mikilvægt að koma hingað upp og taka fram að þótt hv. þm. Ásmundur Friðriksson tali um að það hafi verið einhugur og allir hefðu verið sammála, þá var einhugur um nauðsyn þessara laga en ekki endilega að þetta væri gott mál. Það hefði að mínu mati verið betra ef þessi vinna hefði farið af stað mun fyrr. Þetta er náttúrlega bráðabirgðaákvæði og þarna er verið að víkja frá ákvæðum laga. NPA-aðstoð er búin að vera á tilraunastigi í þó nokkuð mörg ár. Þetta er vinna sem hefði átt að fara fram mun fyrr þannig að við hefðum verið tilbúin með einhverja framtíðarsýn í þessum málum og þyrftum ekki að vera að samþykkja bráðabirgðaákvæði enn einu sinni.

Það var bara þetta sem ég vildi árétta og vildi að kæmi skýrt fram. Þetta var m.a. ástæða þess að við ákváðum að minnka tímann í eitt ár til þess að passa upp á það að þessi vinna færi af stað og hún færi vel af stað þannig að við þyrftum ekki að víkja frá ákvæðum laga um hvíldartíma og næturvinnutíma heldur gætum fundið varanlega lausn sem virkar fyrir notendur NPA-þjónustunnar og einnig þá sem veita þjónustuna og starfa við þetta.