149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[19:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans og ágæta yfirferð á málinu. Ég tel að hér sé um afar gott mál að ræða og gleðilegt að við skulum vera að stíga þetta skref, eins og nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á, einmitt á þessum tímamótum í sögu þjóðarinnar þegar rétt 100 ár eru liðin frá fullveldi Íslands.

Við erum að mínu viti með þessu að skjóta styrkari stoðum undir samfélagið, efla þá getu sem við höfum sem samfélag til að taka áföllum en líka til að, eins og kemur fram í bráðabirgðaákvæðunum, byggja upp til skamms tíma úrræði eins og til að mynda hjúkrunarheimili. Eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á áðan fer mjög vel á því að hafa í upphafi tilurðar þessa sjóðs það sem við getum kallað hliðarverkefni, þ.e. að veita tiltekinn hluta fjármuna í uppbyggingu hjúkrunarrýma, einmitt vegna þess að sá grunnur sem við stöndum á er byggður upp af þeim kynslóðum sem fyrstar munu nota þessi hjúkrunarheimili. Þess vegna er sérstaklega gleðilegt að þessi leið skuli vera farin og þessi jákvæða táknræna aðgerð mjög gleðileg hvað það varðar.

Ég velti því fyrir mér hvort tekjustofnar sjóðsins ættu mögulega að vera fleiri en getið er í frumvarpinu sjálfu. Raunar kom hæstv. ráðherra inn á það lítillega áðan að auðvitað gæti það komið til, eignasala eða eitthvað þess háttar gæti komið til, en ég velti því fyrir mér hvort arðgreiðslur frá fleiri orkufyrirtækjum en eingöngu Landsvirkjun eða arðgreiðslur frá fleiri auðlindum gætu komið til greina, til að mynda af réttinum til að stunda fiskeldi, og þannig mætti lengi telja. Ef við lítum á landið okkar í heild sem auðlind, að það að einhver skuli vilja kaupa sig hingað til lands til að borga fyrir að skoða landið okkar sé önnur auðlind, þá getur maður alveg ímyndað sér að það gæti verið á einhverjum tímapunkti tekjulind fyrir svona sjóð. Ég velti fyrir mér hvort einhvers konar skýrari ákvæði eða aðeins meiri umbúnaður í nefndaráliti við 5. gr. gæti átt þar við.

Það kemur fram í greinargerð frumvarpsins að það muni taka 20 ár eða svo að byggja sjóðinn upp í 250–300 milljarða. Ég velti aðeins fyrir mér hvort það væri ástæða til að setja hreinlega ákvæði í lögin um tiltekin stærðarmörk sem sjóðurinn gæti komist upp í áður en væri farið að úthluta úr honum eða nota fjármuni úr honum til annarra verkefna en þeirra sem tengjast beint áföllum. Nú skulum við vona að áföll á næstu árum leiði ekki til þess að við þurfum að grípa til sjóðsins í hvelli. Áföll eins og getið er um í frumvarpinu verða ekkert endilega á 20–30 ára fresti heldur jafnvel sjaldnar og þá á einhverjum tímapunkti gætu vaknað þær spurningar, eins og til að mynda hefur gerst í Noregi, hvort tímabært sé eða skynsamlegt að grípa til fjármuna úr sjóðnum. Þetta munum við væntanlega ræða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég vil líka aðeins snerta á því sem aðrir ræðumenn hafa komið inn á í sambandi við fjárfestingarstefnu sjóðsins. Ég tel að það sé a.m.k. mikilvægt að taka einn snúning á því í nefndinni hvort það eigi að vera einhvers konar umhverfisvinkill á fjárfestingarstefnu sjóðsins. Það væri táknrænt í því tilliti að grunnurinn að arðgreiðslum í sjóðinn er einmitt byggður á umhverfisvænni vinnslu orku, a.m.k. stórt séð. Það væri t.d. vangavelta að setja inn einhver skilmerki um framleiðsluvörur þeirra fyrirtækja eða verðbréfa sem fjárfest er í.

Ég lít þannig á að þessi sjóður verði enn eitt akkerið sem við höfum í íslensku samfélagi og verði býsna mikilvægt sem slíkt. Ég hef áður nefnt það í ræðu að lífeyrissjóðakerfið í landinu er annað mjög mikilsvert og stórt akkeri sem skiptir okkur mjög miklu máli og hefur gert í gegnum tíðina. Ég held að í samfélagslegu tilliti sé einmitt mjög mikilvægt að reka niður svona hæla til að tryggja að við getum staðist áföll og brugðist við óvæntum viðburðum.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Ég ætla reyndar að nefna varðandi stjórn sjóðsins, raunar var aðeins komið inn á það hér áðan líka, að það kann að vera að hún ætti að hafa breiðari skírskotun en þarna er. Það er væntanlega eitthvað sem hv. nefnd tekur fyrir. En ég hlakka til að vinna að þessu þarfa verkefni í efnahags- og viðskiptanefnd og fagna því enn og aftur að þetta mál sé hér fram komið.