149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

persónuupplýsingar í sjúkraskrám.

[10:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það sem hv. þingmaður er að vísa til er birting í dómum þar sem er óhjákvæmilega er oft fjallað um viðkvæmar persónuupplýsingar aðila máls, bæði í einkamálum og sakamálum, ekki síst í einkamálum þar sem oft hefur verið vísað til sjúkrasögu viðkomandi. Það er auðvitað alveg óforsvaranlegt að reifun slíkra dóma sé gerð opinber. Þá er líka nauðsynlegt að velta fyrir sér, og ég veit að dómstólarnir eru að gera það þessa dagana, hvort það sé nauðsynlegt að hafa í dómum yfir höfuð þessar upplýsingar sem rétt er að verði ekki gerðar opinberar.

Hv. þingmaður getur treyst því að ég skoði þessi mál og ég er sammála honum um að þetta er algjörlega óforsvaranlegt. Birting dóma má ekki verða til þess að íþyngja vitnum um of og má ekki heldur verða til þess að menn veigri sér yfir höfuð við að fara fyrir dóm með sín mál sem oft fjalla einmitt um viðkvæm persónuleg efni.