149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

kjör aldraðra.

[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir þetta göfuga markmið sem hv. þingmaður lýsir hér. Ég vil síðan í stærra samhengi hlutanna benda á mikilvægi þess að við göngum úr skugga um að þær skuldbindingar sem við gefum til langrar framtíðar séu fjármagnaðar þannig að við getum staðið undir þeim þegar að því kemur. Þetta er auðvitað stórt mál sem er erfitt að tæma í tveggja mínútna og einnar mínútu andsvörum. Það er flókið þetta samspil ýmiss konar réttinda sem fólk á, t.d. í lífeyriskerfum og síðan réttinda sem er að finna í almannatryggingakerfinu. Við þurfum að gæta þess að hafa skerðingarnar ekki of miklar. Auðvitað þurfa að vera frítekjumörk fyrir atvinnutekjur, fjármagnstekjur, aðrar tekjur eins og lífeyristekjur en sérhver hreyfing, vegna þess hve stór hópurinn er, til breytinga á skerðingarmörkum getur verið mjög útgjaldamikil. Þess vegna (Forseti hringir.) er þessi hópur að störfum, til að fara yfir það hvar við getum gert breytingu sem kemur að mestum notum í anda þess sem hv. þingmaður er hér að telja fram og um það snýst vinnan. Fjármálaáætlun lýsir því síðan hvert svigrúmið er til framtíðar.