149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

álag á kynferðisbrotadeild lögreglunnar.

[11:01]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í viðtali á Stöð 2 í gær var rætt við yfirmann ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Huldu Elsu Björgvinsdóttur, þar sem hún gerir að umtalsefni áhyggjur sínar og embættisins af álagi og málafjölda hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og talar þar um málsmeðferðartíma sem sé óhóflega langur og að dómstólar geri í auknum mæli athugasemdir við málsmeðferðarhraðann og að þetta leiði til þess að dómstólar séu í auknum mæli farnir að skilorðsbinda dóma í alvarlegum kynferðisbrotamálum.

Það er fráhvarf frá því sem verið hefur að alvarleg brot eru ekki skilorðsbundin, jafnvel þó að dráttur sé í málsmeðferð þeirra. Þetta er grafalvarlegt mál. Við erum í samfélaginu að reyna að skera upp herör gegn kynferðisafbrotum og hluti af því er auðvitað að dómskerfið og rannsóknarkerfið virki sem skyldi. Það er afar slæmt ef kerfið sjálft veldur því að kynferðisafbrotamenn sleppa með vægari refsingu en ella.

Spurning mín til hæstv. dómsmálaráðherra er því þessi: Hefur hann sömu áhyggjur af stöðunni og yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu?