149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[11:42]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er merkur áfangi sem við erum að ná. Við samþykkjum hér eftirlit með því að þess sé gætt að aðbúnaður og meðferð öll gagnvart þeim sem minnst mega sín í samfélagi okkar sé mannúðleg og eðlileg, gagnvart þeim sem af einhverjum ástæðum eru sviptir frelsi sínu með beitingu opinbers valds. Það er annar þáttur í þessu frumvarpi sem ég held að sé líka mjög mikilvægt að við höfum í huga, þ.e. vernd þeirra sem kjósa að upplýsa umboðsmann um eitthvað sem miður hefur farið í samfélaginu. Gildir það ekki bara um þessi mál heldur almennt, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir umboðsmann Alþingis, Alþingi sjálft og okkur öll, að menn geti öruggir leitað til umboðsmanns með erindi sín.