149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

virðisaukaskattur.

432. mál
[12:42]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég hef engar efnislegar athugasemdir við þetta frumvarp enda er ég, eins og fram kom í máli hv. þingmanns og framsögumanns, Óla Björns Kárasonar, á nefndarálitinu og styð málið. Ég kem hins vegar aðeins upp til að árétta þá aðfinnslu sem finna má í nefndaráliti meiri hluta um hversu seint þetta mál er fram komið. Mér finnst það endurspegla virðingarleysi af hálfu framkvæmdarvalds gagnvart þinginu. Það er ljóst að umrætt mál var í undirbúningi og kynningu innan Stjórnarráðsins sl. sumar, fór í samráðsgátt Stjórnarráðsins að ég hygg í ágúst sl. og framkvæmdarvaldið eða Stjórnarráðið, ráðuneytið í þessu tilviki, er í raun og veru búið að taka sér ansi góðan tíma í að koma málinu til þingsins en ætlar þinginu síðan að ljúka því nánast umræðulaust þannig að nefndinni gafst í raun enginn tími til að fara yfir málið af neinni sérstakri vandvirkni. Þetta þykja mér ekki góð vinnubrögð og þau eru það sem ég hef mestar áhyggjur af. Mér finnst þetta vera að gerast aftur og aftur. Sú viðleitni Stjórnarráðsins, sem er góðra gjalda verð, að auka samráð á fyrri stigum undirbúnings mála má ekki verða til þess að þingið sé svipt tíma sem það þarf til að fara vandlega yfir málin.

Við eigum allt of mörg dæmi um slys sem hafa átt sér stað í lagasetningu hér á landi, m.a. út af knöppum tíma sem þingið hefur haft til vinnslu mála og sú nýbreytni Stjórnarráðsins að taka upp samráðsferli áður en mál ganga síðan til þingsins kann að vera ágæt. Ef hún á að verða með þeirri afleiðingu að þingið verði bara stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið er það afleit þróun að mínu viti og ég vona að við munum ekki horfa upp á síendurtekin tilvik eins og þessi.