149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[11:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Hérna er kveðið á um auknar heimildir til að miðla upplýsingum um börn. Það er samdóma álit umsagnaraðila að það sé börnunum fyrir bestu í þessum málum. En þar sem verið er að tala um miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga vil ég árétta það sem fram kemur í nefndaráliti að rætt var í nefndinni og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans hvernig persónuverndarlög eiga að haga þeim málum og sömuleiðis að þarna eigi einungis að miðla þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að taka ákvarðanir, og þá að sjálfsögðu út frá hagsmunum barnsins sjálfs.

Ég vildi nefna þetta vegna þess að miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga þarf alltaf að skoða mjög vandlega. En að mínu mati var það skoðað nógu vandlega og því styð ég þetta ákvæði.