149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[11:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að vera ekki með á áliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar við afgreiðslu þessa máls. Það var einfaldlega ýmislegt sem ég þurfti að velta aðeins betur fyrir mér og ræða við annað fólk um, en eftir þær umræður og vangaveltur hef ég komist að niðurstöðu um að æskilegt sé að styðja þetta mál.

Þó vil ég taka fram að þetta mál er þess eðlis að það er ekki til eitthvert eitt heilagt, rétt svar við mörgum af þeim spurningum sem við verðum að spyrja okkur þegar við ákveðum þessa hluti. Ég tel þó að þessi lög þurfi að vera til staðar. Auðvitað þarf þetta að vera einhvern veginn. Við viljum að fólk endurheimti borgararéttindi sín á einhverjum tímapunkti.

Ég vildi bara koma hingað upp og nefna að mér þætti ekkert skrýtið eða útilokað að þetta yrði endurskoðað út frá öðrum forsendum seinna meir og við tökum væntanlega þá umræðu þegar að því kemur. En þetta þarf að vera til staðar að mínu mati og því mun ég styðja málið.