149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[11:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við séum að greiða atkvæði um þetta mál, sem hófst með þinglegri meðferð í þinginu fyrir rúmu ári, um gagngera breytingu á því fyrirkomulagi sem kallast hefur uppreist æru. Ég vek athygli á því að hér er um að ræða miklar formbreytingar sem við samþykkjum hér. Öll meðferð málsins, bæði meðferð þessa frumvarps og einnig meðferð í aðdraganda þess, hefur vakið upp réttmætar spurningar og vangaveltur um þau skilyrði sem löggjafinn vill gera til ýmissa starfa, embætta og venjulegra starfa hjá hinu opinbera.

Ég árétta að með þessu frumvarpi er auðvitað ekki settur endapunktur aftan við þá vinnu alla saman. Þau mál heyra hins vegar ekki undir dómsmálaráðuneytið fyrst og fremst heldur miklu frekar undir fleiri ráðuneyti. Ég hvet löggjafann til að halda áfram skoðun á þessum málum í víðara samhengi en þakka samvinnu við þingið um þetta frumvarp og í aðdraganda þess.