149. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Sú breytingartillaga sem hér var mælt fyrir undirstrikar bráðan fjárhagsvanda viðkomandi heilbrigðisstofnana. Það er auðvitað mjög sláandi að við þessu hafi ekki verið brugðist. Rætt var um þetta í sérstakri bókun fjárlaganefndar í tengslum við fjármálastefnu áranna 2019–2023 að við þessu þyrfti að bregðast en það var ekki gert. Lagðar voru fram breytingartillögur, ítrekað, í meðferð fjárlaga fyrir árið 2019 sem meiri hlutinn kaus að fella, allar.

Það er bara svo sérstakt að horfa upp á þá stöðu að á sama tíma og langmesta fólksfjölgunin hefur orðið á því svæði eru þetta þær stofnanir sem hlutfallslega fá minnst í sinn hlut. Heilbrigðisraunaukning framlaga til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er liðlega 12% á árunum 2014–2018, meðan meðalraunaukning til annarra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni er á bilinu 16–19%, en samt er fólksfjölgunin á þessu svæði nær þreföld meðalfólksfjölgun á landinu öllu. Mér er það algerlega óskiljanlegt af hverju stjórnarmeirihlutinn hefur kosið að skella algjörum skollaeyrum við þessari stöðu og þeirri þróun.

Auðvitað er ekkert óvænt eða ófyrirséð í þessu. Það hefur verið ítrekað varað við þessu. Fjárlaganefnd, meiri hluti hennar hafði varað við þessu sjálfur en eftir sem áður kýs meiri hlutinn að gera ekkert í málinu. Það er miður að sjá.

Það má alveg velta upp þeirri spurningu hvort þetta uppfylli kröfur sem gerðar eru til fjáraukalaga varðandi það að hér sé um ófyrirséð útgjöld sem ekki hefði mátt bregðast við með öðrum hætti. Sannarlega mátti bregðast við þessu með öðrum hætti með því að samþykkja t.d. breytingartillögur minni hlutans, bæði af hálfu Samfylkingarinnar og af hálfu Viðreisnar sem lagðar voru fram til að reyna að ráða bót á þessari stöðu. En ég hygg að það verði ekki mikið vandamál af hálfu meiri hlutans að horfa fram hjá því, því að það á við um flest þau atriði sem eru í þessum fjárauka hvort eð er. Meiri hlutinn hlýtur að geta tekið sig saman í andlitinu og lyft undir með þeim stofnunum sem hér eiga í hlut.