149. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tók þá ákvörðun fyrir rúmum klukkutíma að hlaupa hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur uppi til að fá að vera með henni á þessari breytingartillögu. Hver er ástæðan? Jú, hún er í rauninni fordæmalaus. Við höfum aldrei áður staðið frammi fyrir annarri eins fólksfjölgun á einum stað á landinu og við horfumst nú í augu við. Maður spyr sig á sama tíma og sagt er að vitað sé hve mikill vandinn er: Er nóg að við sem höfum fjárlagavaldið eða við sem útbýtum gæðunum til landsmanna segjumst vita um hlutina en viðurkennum um leið að við ætlum ekki að bregðast við þeim?

Það er dapurlegt að vera þingmaður þjóðarinnar ef maður veit í hjartanu að það er mikill vandi á ferðinni og segja á sama tíma: En sjáið til, við ætlum bara að bregðast við honum seinna.

Í annað sinn í dag sat ég fund fjárlaganefndar og fór að velta fyrir mér hvort við værum hér með að mismuna þegnunum. Erum við að mismuna þegnunum því að við vitum að það er vandi úti um allt land? Það er ekki eins og það sé ekki vitað. Við erum að leggja 400 millj. kr. inn í þennan vanda. Reynt er að útbýta gæðunum hvað það varðar og jafna það á milli þar sem þörfin er mest. En á sama tíma horfum við á fordæmalausa fólksfjölgun á Suðurnesjum upp á yfir 22% bara á núll einni, eins og unglingarnir segja. Það er algjörlega fordæmalaust.

Er það ekki okkar sem förum með fjárveitingavaldið, er það ekki okkar sem úthlutum og miðlum gæðunum til þegnanna, að sýna a.m.k. að við öxlum þá ábyrgð? Og ef eitthvað fordæmalaust kemur upp sem er ófyrirséð enn þá — það er ófyrirséð enn þá hver vöxturinn verður raunverulega því að það er ekkert lát á honum, virðulegi forseti.

Ég er stolt af því að fá að vera flutningsmaður með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur á þessari breytingartillögu núna. Þetta er síðasta tækifærið okkar, þetta eru fjáraukalög og síðasta tækifæri okkar til að bregðast raunverulega við án þess að stinga hausnum í sandinn og segja bara: Jú, við vitum að þetta er vandi en við ætlum ekki að gera neitt, við ætlum að bíða þangað til seinna, þangað til eftir áramótin, þangað til að við förum í fjármálaáætlun næstu ára.

Ég hvet alla til að horfast í augu við þetta fordæmalausa ástand, þá miklu breytingu sem orðið hefur á umgjörðinni og hvet okkur til að axla ábyrgð. Ég hvet okkur til að virða það að fólk á að eiga rétt á því að nýta sér heilbrigðisþjónustu í heimabyggð sinni. Það á ekki að þurfa að hlaupa á milli byggðarlaga til að leita sér læknishjálpar. Það er í rauninni síðasta sort.

Ég hvet alla til að stíga fram núna. Ef það er nokkur einasti kostur lagalega séð að standa í lappirnar hvet ég okkur öll til að gera það, sérstaklega hv. fjárlaganefnd, sem ég veit að hefur staðið sig með sóma. Það vantar ekkert upp á það og auðvitað kemur þetta inn algjörlega á síðustu metrunum, en það kemur ekki of seint inn. Við getum klætt það í jólabúninginn því að við erum að fara í jólafrí. Við getum sent þessa gleði á Suðurnesin sem sannarlega þurfa á henni að halda.

Ég segi enn og aftur: Gleðileg jól, kæru landsmenn og kæru alþingismenn. Tökum utan um málið og hjálpumst að við að gera þetta mögulegt.