149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég botnaði ekkert í því. Á engum tímapunkti mæli ég gegn því að gera gangskör í samgöngumálum og sérstaklega í sambandi við öryggisatriði á vegunum. Ég var aðallega að tala um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á fjármunum borgaranna, á peningunum okkar. Er ekki nær að forgangsraða betur í þágu fólksins í stað þess að leggja á frekari skatta? Er ekki ástæða til að horfast í augu við að það ætti frekar að forgangsraða þannig að láta þá greiða sem geta? Það eru alltaf þeir sem minnst hafa sem borga. Það er alltaf dýrt að vera fátækur. Það kostar 1.500 kr. að fara í gegnum Vaðlaheiðargöngin ef maður er ekki með kort, en það er hægt að lækka það alveg niður í 700 kr. ef maður kaupir 100 miða í einu. Það kostar 70.000 kr., hæstv. ráðherra. Ég vil meina að sá þjóðfélagshópur sem ég tilheyrði, og tilheyri náttúrlega enn þótt ég sé orðin núna alþingismaður á ofurlaunum, geti aldrei nokkurn tíma keypt þetta kort. Það er fyrir utan framkvæmdina á þessu. (Forseti hringir.) Einhver gamall maður keyrir í gegn, er ekki með gemsann á sér á leið til Hornafjarðar og þá er bara búið að rukka hann um extra þúsundkall af því að hann á að vera búinn að greiða ferðina ekki síðar en þrem tímum eftir að hann keyrir í gegnum göngin. Ég veit ekki hvers lags eiginlega fyrirkomulag þetta er, hæstv. forseti.