149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

vinnuálag lækna.

[13:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Könnunin verður kynnt ítarlega á læknadögum í dag eftir því sem ég skil best, hún hefur ekki verið til á aðgengilegu formi þannig að það liggur í raun og veru ekki meira fyrir en það sem fram hefur komið í fjölmiðlum og ég hef haft tök á að kynna mér rétt eins og hv. þingmaður hefur gert. Af þeim sökum get ég bara brugðist hér við með mjög almennum hætti.

Í fyrsta lagi vil ég segja að það sem hér kemur fram er auðvitað áhyggjuefni en um leið verðum við að gæta að því að mönnun í heilbrigðisþjónustunni almennt hefur verið töluvert krefjandi viðfangsefni íslenskra heilbrigðisyfirvalda um áratugaskeið og hefur raunar verið viðfangsefni um víða veröld. Okkar sjónir hafa raunar fyrst og fremst beinst að mönnun í hjúkrun á höfuðborgarsvæðinu en líka í heilsugæslu og heimilislækningum úti um land. Það fer svolítið eftir því hvort við erum að tala um landsbyggð eða höfuðborgarsvæði hverjar áskoranirnar eru helstar í mönnunarmálum af því að hv. þingmaður spurði um það.

Hins vegar vil ég segja, þannig að það sé alveg skýrt, að starfsumhverfi lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna er auðvitað á ábyrgð heilbrigðisstofnananna sjálfra og rekstraraðila þar sem viðkomandi aðilar starfa. Það er eitthvað sem viðkomandi stofnanir verða að horfa til. Með nýrri heilbrigðisstefnu horfum við líka meira til þess að hver stofnun fyrir sig beri ábyrgð á árangri og gæðum þeirrar þjónustu sem þar er veitt. En svo það liggi líka fyrir þá vænti ég þess að funda með formanni Læknafélags Íslands alveg á næstu dögum, út af reyndar ýmsum málum en ég geri ráð fyrir að þetta mál beri þar líka á góma.