149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

kosning tveggja nýrra varaforseta tímabundið. --- Ef leyft verður.

[14:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér birtist einn af undarlegri öngum þessa máls og eru þeir þó margir. Forseti tilkynnir hvaða tveir hv. þingmenn eigi að taka að sér það hlutverk sem hann ætlaði þeim og lýsti í fréttum fyrir fáeinum dögum, sem sagt að skila þeirri niðurstöðu sem forseti vill fá í málið. Þessir þingmenn voru valdir með hætti sem hefur örugglega aldrei sést áður í sögu Alþingis. Eitt af mörgu sem forseti á eftir að svara er: Nákvæmlega hvernig gekk þetta fyrir sig? Hver tók ákvörðun um að eðlilegt væri að forseti fæli starfsmönnum Alþingis að grennslast fyrir um viðhorf þingmanna til að geta síðan handvalið þá tvo þingmenn sem hann er nú búinn að setja til verka?