149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:38]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Frú forseti. Ég þakka allar ábendingar sem mér og okkur hafa borist í dag. Það er greinilega margt í bígerð hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. En þegar ég talaði um að það vantaði hjúkrunarrými var ég að vitna til orða forstjóra Landspítalans sem sagði að skortur á hjúkrunarfræðingum leiddi til þess að skortur væri á hjúkrunarrýmum og þess vegna væri ekki hægt að hafa allar deildir opnar, ég skildi hann þannig. Mér þykir mjög ánægjulegt að sjúkrahótelið eigi að opna núna í apríl og vissulega mun það bæta stöðuna eitthvað. Það er rétt sem hér kom fram, það eru ekki nýjar fréttir með yfirfullan spítala. Það er samt sem áður mikilvægt að við tökum umræðuna af og til til að vekja okkur öll.

Fram kom að jafnvel þyrfti að fara betur með það fé sem færi til Landspítala. Mig langar að koma inn á það að við þurfum alla vega að vita hvað er gert með það fjármagn sem fer þangað.

Í lokin langar mig að spyrja: Eru viðræður við önnur sjúkrahús? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé einhver hugsun um að fara að beina fólki frá Landspítala og nýta þau sjúkrahús sem við höfðum áður. Ég spyr vegna þess að nú á að auka göngudeildarþjónustu. Það þykir mér svolítið sérstakt vegna þess að við höfðum fyrirkomulag við sérgreinalækna sem virkaði alveg ágætlega. Mig langar að vita hvað er í farvegi með það.

Að lokum vil ég þakka innilega fyrir umræðuna í dag og mér heyrist ákveðinn samhljómur vera á milli allra þeirra hv. þingmanna sem tóku til máls.