149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

274. mál
[16:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Ég þakka flutningsmanni fyrir að hafa mælt fyrir þessari tillögu. Seinni hluti hennar hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sérstök áhersla verði lögð á félagsleg réttindi, heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnuþátttöku þannig að á Íslandi verði fjölmenningarsamfélag þar sem grundvallarstefin eru jafnrétti, réttlæti og virðing fyrir lífi án mismununar.“

Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta. Málið er hins vegar að okkur Íslendingum hefur farist nokkuð óhönduglega að taka á móti fólki af erlendum uppruna. Við höfum í sjálfu sér ekki lært í neinu af þeim mistökum sem þjóðirnar í kringum okkur hafa gert. Það ríður á miklu að við tökum okkur á í því efni.

Fram kemur á bls. 3 í greinargerðinni, þar sem fjallað er um menntun:

„Virkt tvítyngi tryggir kunnáttu í íslensku og stuðningur við móðurmál barna er lykill að farsæld barna og ungmenna í skóla-, frístunda- og félagsstarfi …“

Þetta er reyndar í öfugri röð vegna þess að það hefur verið vísindalega rannsakað að ef börn eiga að ná valdi á tungumáli númer tvö í því landi sem þau flytjast til þarf fyrst að kenna þeim á eigin móðurmáli. Annars er hættan sú að þau verði á hvorugu málinu almennilega mælandi eða skrifandi.

Eins og kemur fram í hinni ágætu greinargerð, með leyfi forseta:

„Börn fólks af erlendum uppruna sækja síður um nám í framhaldsskóla og af þeim fámenna hópi útskrifast enn lægra hlutfall …“

Þetta er m.a. vegna þess að við höfum ekki staðið okkur til þessa í því að kenna að börnunum fyrst og fremst á móðurmáli þeirra.

Þetta einskorðast ekkert við Ísland. Ég veit t.d. um afa þriggja nýbúabarna í Danmörku og þau fá ekki kennslu á móðurmálinu, íslensku, af yfirvöldum og er þó Danmörk talin til fyrirmyndarlanda í móttöku á erlendum innflytjendum. En við reynum að bera okkur saman við hin ágætu Norðurlönd, sem eiga að vera okkur fyrirmynd.

Forseti. Sumir virðast halda að um leið og búið er að afhenda innflytjendum blómvönd og konfektkassa í Leifsstöð sé hlutverkinu lokið, en þá byrjar það. Þá tekur við að við þurfum sem samfélag að taka utan um þá hópa og gera þeim kleift að blómstra í þjóðfélaginu. Það hefur sárlega vantað upp á, að mínu mati.

Það er staðreynd að við erum ekki með grunnstoðir okkar uppbyggðar til þess að geta tekið sómasamlega á móti innflytjendum. Þess vegna þótti mér mjög miður að heyra hv. flutningsmann sneiða að þingmanni Miðflokksins sem vakti máls á því að hér hefði farið fram lítil umræða um Marrakesh–sáttmálann. Hann varaði jafnframt við því að að honum samþykktum myndi streyma hingað fjöldi innflytjenda, eðlilega, sem við værum ekki í stakk búin til að taka almennilega á móti, ekki af því að það væri einhver andúð á þeim heldur vegna þess að grunnstoðir okkar eru ekki reiðubúnar til að taka á móti mjög auknum fjölda innflytjenda.

Síðan er það sjálfstætt mál að við höfum heldur ekki staðið okkur þegar um er að ræða fólk sem hefur stöðu hælisleitenda eða sem sækir hér um vernd. Mál þess taka allt of langan tíma áður en úrlausn fæst. Þetta hefur orðið til þess að héðan hefur fólki verið vísað frá sem er farið að festa rætur, börn komin í skóla o.s.frv. Að sjálfsögðu á það fólk rétt á því að við tökum mál þess fyrir á þann hátt að afgreiðsluhraði okkar, eða stofnana okkar, á málum þess sé með mannsæmandi hætti, til að koma í veg fyrir að upp komi mál eins og hafa því miður ítrekað komið upp. Þetta er kannski það sem vara þarf við.

Um leið og við tökum til umfjöllunar tillögu eins og þessa þurfum við að gera okkur grein fyrir því hvað við þurfum sem þjóðfélag að gera til að geta uppfyllt þær væntingar sem við gefum í skyn með henni. Þess vegna þurfum við að taka umræðu um hvað við þurfum að gera og hvernig til að byggja upp nauðsynlegar grunnstoðir, hvað við þurfum að gera til að efla menntakerfi okkar til að vera í stakk búið til að gefa börnunum, ef ég get orðað það þannig, tækifæri sem þau hafa ekki haft. Við vitum að brottfall úr framhaldsskóla meðal barna af erlendum uppruna er allt of hátt og við þurfum að koma í veg fyrir að hér verði kynslóðir af fólki sem, eins og maður segir, fékk aldrei möguleika. Við eigum að reyna að koma í veg fyrir það með öllu móti að við séum að stuðla að því með því að standa okkur ekki að hér verði til heilar kynslóðir sem líti á sig sem nokkurs konar undirmálsfólk vegna þess að þær hafa ekki fengið tækifæri, vegna þess að við höfum ekki gefið þeim tækifæri. Það er þetta sem við þurfum að taka sérstaklega til þegar við ræðum tillögu eins og þessa.

Við ættum hins vegar að forðast í umræðunni að gefa okkur það að andstæðingar okkar í pólitík séu með einhverjar annarlegar hvatir þegar kemur að málaflokknum, þótt þeir séu ekki á nákvæmlega sömu skoðun og við sjálf. Ef við dettum í þá gryfju höfum við dottið í gryfjuna sem sagt er frá í Lúkasarguðspjalli í sögunni af faríseanum og tollheimtumanninum. Þar gengu tveir menn saman inn í musteri. Annar hóf hendur sínar til himins og horfði til himins, barði sér á brjóst og sagði: Guð, þakka þér fyrir að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Tollheimtumenn höfðu á sér vafasaman stimpil í þá tíð þótt þeir séu virtir í þjóðfélaginu núna. Það er kannski eitt dæmi um það að þegar ein stétt fær möguleika til að sanna sig fær hún aukna virðingu í samfélaginu.

En tollheimtumaðurinn stóð langt frá, hann fór ekki inn í musterið, huldi höfuð sitt og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur.

Lærdómurinn sem draga má að þessu er að sá maður fór réttlátur heim til sín en hinn ekki því að hver sem upphefur sjálfan sig mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig mun upphafinn verða.

Ég held að það ætti að vera okkur leiðarstef þegar við ræðum þau mál og önnur mál, án þess að hafa fyrir fram gefið óþol fyrir skoðunum annarra eða gera hvert öðru upp skoðanir sem við höfum sannarlega ekki. Ég ætla flutningsmanni ekki að hafa gert það heldur held ég að þetta hafi verið klaufaskapur af hans hálfu og treysti því.

Ég vona að þetta mál fái greiða för og vandaða í gegnum Alþingi og að við tökum hreinskipta umræðu um það hvernig við sem þjóðfélag þurfum að bæta okkur og grunnstoðir okkar til að geta sinnt þeim hópi sem við viljum svo gjarnan taka á móti og veita tækifæri og betra tækifæri en fólkið hafði þar sem það býr eða er upprunnið. Til þess þurfum við að taka hreinskipta umræðu og forðast að hnýta hvert í annað og tala niður hvert til annars.