149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

274. mál
[16:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Hvað varðar mistök Dana væri kannski nærtækast að benda hv. þingmanni á að kanna stefnu systurflokks síns í Danmörku, hvernig hún hefur breyst í tímans rás, frá því að vera svona alltumvefjandi og vera núna frekar harðneskjuleg. Það er kannski vegna þess að Danir tóku á móti miklum fjölda innflytjenda sem þeir gátu svo ekki sinnt almennilega. Mistökin liggja kannski í því að í Danmörku hafa þessir hópar einangrast nokkuð. Orðið hafa til innflytjendahverfi sem eru ekki til þess fallin að bæta lífsgæði þeirra sem þar búa eða hvetja til þess að þeir aðlagist vel því þjóðfélagi sem þeir hafa flutt til.

Það eru allt saman mistök sem við eigum að læra af vegna þess að við kærum okkur ekki um þetta. Við kærum okkur ekki um að innflytjendur verði hópur illa menntaðra einstaklinga sem býr einhvers staðar sér út af fyrir sig, aðlagast illa þjóðfélagi okkar og nær ekki sjálfur árangri. Við þurfum náttúrlega að tryggja að þeir sem hingað leita búi við betri kjör en þau sem þeir flúðu á sínum tíma. Þetta ætti að standa okkur nærri vegna þess að á árunum 1850 fram undir 1900 fóru 20–30% af þjóðinni héðan vestur um haf. Þar var vel tekið á móti þeim og þeir nutu ávaxta erfiðis síns. Það er akkúrat það sem við viljum að þeir sem hingað leita geri einnig, að þeir blómstri í nýju þjóðfélagi sem tekur vel á móti þeim. Það held ég að málið snúist um. Hvort ég styð málið kemur náttúrlega í ljós þegar það verður afgreitt.