149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

stjórnarskipunarlög.

501. mál
[18:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Aðeins meira um sáttina en sáttin fékkst í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Það eina sem getur tekið þá sátt aftur er önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. Það þýðir að öll sátt um breytingar verði að vera sátt um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs sem eiga að liggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá, ekki sátt um að gera eigi breytingar á stjórnarskrá. Það á að breyta stjórnarskránni, það voru niðurstöður atkvæðagreiðslunnar. Sáttin verður að vera ef á að breyta einhverju í frumvarpinu sjálfu. Ég er ekki endilega sáttur við allar breytingarnar í því frumvarpi sem hér er lagt fram, enda er það bara staða málsins eins og það var þegar málið kom síðast út úr nefnd. Það endurspeglar ekki endilega óskaniðurstöðu mína af því að þær eru nokkrar, breytingarnar frá frumvarpi stjórnlagaráðs eins og þær hafa verið gerðar í vinnu Alþingis síðan þá. En málið eins og það er statt núna er einfaldlega eins og það er komið upp úr skúffunni. Við eigum að sjálfsögðu eftir að taka efnislega afstöðu til þeirra breytinga miðað við hvernig þær eru frá frumvarpi stjórnlagaráðs.

En mig langar að fara aðeins yfir efni sem ég fjallaði um fyrir nokkrum árum þegar stjórnarskráin var mikið í umræðunni, fyrir kosningarnar 2016, og rifja upp það sem ég fjallaði um þá. Þá hafði nýja stjórnarskráin verið mikið í umræðunni árin á undan og er það enn. Sumir mæla með nýrri stjórnarskrá en aðrir vilja litlar eða jafnvel engar breytingar. Umræðan er eðlileg. Breytingar geta verið flóknar og erfiðar nefnilega, hvað þá breytingar á einhverju eins mikilvægu og sjálfri stjórnarskránni. Ég hef heyrt ýmis rök í eina eða aðra áttina fyrir því að ekki eigi að breyta stjórnarskránni. Rökin eru allt frá því að breytingar muni valda óvissu til þess að óvissa sé í því að halda núverandi stjórnarskrá, hvort tveggja öfgar.

Stjórnarskrár eru uppfærðar tiltölulega reglulega í flestum löndum heimsins. Líftími stjórnarskráa í vestrænum lýðræðislöndum er um 70–80 ár. Stjórnarskrá Íslands er að verða 75 ára miðað við 1944, annars að verða 100 ára á næsta ári ef miðað er við sambandslögin, sem sagt vel komin fram yfir eftirlaunaaldur. Sumir segja að hún hafi verið komin vel til ára sinna á fyrsta degi, en samfélagið breytist og því verður samfélagssáttmálinn óhjákvæmilega að breytast með, kannski ekki í heilu lagi eins og sumir stinga upp á en það þarf óhjákvæmilega að breyta og bæta með tíð og tíma. Í kosningum um frumvarp stjórnlagaráðs þann 20. október 2012 greiddu 2/3 þeirra sem greiddu atkvæði með því að frumvarp stjórnlagaráðs yrði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá, ekki breyttri stjórnarskrá heldur nýrri stjórnarskrá. Ég hef heyrt alls konar kvartanir um þá atkvæðagreiðslu. Sett er út á kirkjuspurninguna eða fólk vissi ekki um hvað það var að greiða atkvæði eða farið er í orðaskilgreiningar eða kvartað undan kosningaþátttöku. Ég segi oft að gamni með tilliti til kosningaþátttöku að ef 40% samþykkisþröskuldur, eins og var nýlega í stjórnarskrá Íslands, hefði verið í kosningunum sem leiddu til fullveldis Íslands 1. desember árið 1918 hefði sú kosning fallið á mætingu og Ísland hefði ekki orðið fullvalda þann dag.

Mér finnst umræðan um nýja stjórnarskrá og rökin gegn því að hún verði tekin upp mjög ómarkviss. Í þannig aðstæðum fer ég að telja. Ég skrifaði því lítið forrit sem skiptir texta stjórnarskrárinnar og frumvarpi stjórnlagaráðs niður í setningar. Tökum t.d. 10. gr. stjórnarskrárinnar:

„Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit. Geymir Alþingi annað, en þjóðskjalasafnið hitt.“

Það verður í mínu forriti að þessum þremur setningum:

Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum.

Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit.

Geymi Alþingi annað en þjóðskjalasafn hitt.

Ég ber svo saman hverja setningu í stjórnarskránni og leita í gegnum allar setningar í frumvarpi stjórnlagaráðs að þeim setningum sem eru líkastar og vel úr þeim lista það sem er annaðhvort nákvæmlega eins eða mjög svipað. Til dæmis passar setningin í dæminu að ofan: „Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum“, við setninguna í nýja frumvarpinu, nýju stjórnarskránni: „Forseti Íslands undirritar eiðstaf að stjórnarskránni þegar hann tekur við störfum.“

Textinn er ekki nákvæmlega sá sami en markmið setningarinnar er það sama og því geri ég þær sambærilegar.

Í texta stjórnarskrár Íslands eru 203 setningar. Í frumvarpi stjórnlagaráðs eru hins vegar 378 setningar. Nýja stjórnarskráin er því mun lengri en núverandi stjórnarskrá og spurningin sem ég vil svara með því að bera saman allar setningar stjórnarskrárinnar og frumvarp stjórnlagaráðs er: Hversu mikið af núverandi stjórnarskrá er í nýju stjórnarskránni? Að minnsta kosti 160 setningar úr stjórnarskránni er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs. Þá eru 43 setningar úr núverandi stjórnarskrá sem hverfa. Ég er með ágætislista af þeim setningum sem hverfa, hann nær yfir eina og hálfa blaðsíðu með smáu letri en ég er að hugsa um að sleppa því að lesa þær allar upp því að það yrði frekar leiðinlegt, enda eru það setningar sem fara og eru gagnslausar að því leyti til.

Einhverjar af þeim setningum breyttust í meðferð stjórnlagaráðs, til að mynda 51. gr. um atkvæðisrétt ráðherra, að þeir hafi bara atkvæðisrétt ef þeir eru einnig alþingismenn. Það er algjörlega slegið af í frumvarpi stjórnlagaráðs. Ráðherrar geta ekki setið sem þingmenn á sama tíma og þeir eru ráðherrar og hafa þannig ekki atkvæðisrétt.

Einhverjar af þeim greinum sem eftir eru eiga því hliðstæðu eða kannski andstæðu og í frumvarpi stjórnlagaráðs eru því í raun fleiri en 160 greinar úr stjórnarskránni sem halda sér í frumvarpi stjórnlagaráðs, ef maður fer út í þannig nákvæmni. En ég ákvað að vera hófsamur hvað það varðar.

Nýjar greinar eru samkvæmt þessari talningu 228. Það eru tíu fleiri en útreikningur myndi láta mann halda en ástæðan fyrir því er að sumar greinar frumvarps stjórnlagaráðs eiga við fleiri en eina setningu stjórnarskrárinnar. Eftir standa þá 228 setningar í frumvarpi stjórnlagaráðs sem passa ekki við neina setningu í núverandi stjórnarskrá. Reikningsdæmið lítur þá einhvern veginn svona út: Frumvarp stjórnlagaráðs er jafnt og núverandi stjórnarskrá mínus 43 setningar og svo plús 228 nýjar setningar þar sem þær setningar úr núverandi stjórnarskrá eru nákvæmlega eins eða lítið breyttar. Að mínu mati ætti umræðan að snúast um þær 43 setningar sem hverfa og spyrja okkur þá: Er nauðsynlegt að þær hverfi eða er nauðsynlegt að halda þeim? Og þær 228 setningar sem bætast við. Það er augljóst að núverandi stjórnarskrá heldur sér að mestu leyti í þessu, þ.e. næstum því 79% af núverandi stjórnarskrá lifa áfram í nýju stjórnarskránni. Það er í raun aðeins verið að bæta við. Vissulega eru orðalagsbreytingar og skýringar sem gerir margt mun betra.

Viðbætur er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs í nær öllum greinum nema 29 greinum þar sem engar breytingar er að finna. Allar aðrar greinar innihalda setningar sem eru viðbót við núverandi stjórnarskrá. Listinn af þeim greinum er mjög langur og hann er hérna á sex og hálfri blaðsíðu, hvorki meira né minna. Ég ætla ekki heldur að lesa þann lista upp. Hann er að finna í þessu ágæta riti og ég set hann kannski einhvers staðar í frétt eða á vefinn þannig að fólk geti skoðað listann sjálft.

Um þau atriði, þær setningar og ákvæði á umræðan að snúast. Þar eru líka ýmsar aðrar greinar eins og: „Ráðherra gerir þjóðréttarsamninga fyrir hönd Íslands“, í stað forseta áður. Ég hefði getað flokkað þær saman. Þó að það sé í rauninni breyting er það sama markmið, þá þarf að gera þjóðréttarsamninga. Það er bara skipt um hver gerir þá en þá myndi fjölga enn þeim greinum úr núverandi stjórnarskrá sem er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs, en ég lét það vera líka. Af því að það var skipting um hlutverk var það ákveðin breyting sem ég ákvað að gera ekki sambærilega við það sem er í núverandi stjórnarskrá.

Öll umræða um að það að breyta stjórnarskránni eins og hún liggur fyrir núna með frumvarpi stjórnlagaráðs kollvarpi einhverju, búi til lagaóvissu, er lýst í einföldu orði: Bull. Ég ætla ekki að skafa neitt utan af því. Það er einfaldlega þannig.

Núverandi stjórnarskrá er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs annaðhvort orð fyrir orð eða í eilítið breyttri mynd til að vera skýrara að öllu leyti, skýra greinina betur. Ég hlakka til að tala meira og eiga umræðu um þessar greinar og af hverju ekki er lengur þörf á því að hafa greinina „Forseti lýðveldisins hefur aðsetur í Reykjavík eða nágrenni.“ Er þörf á þeirri grein í stjórnarskránni? Ég myndi halda ekki en ég er alveg tilbúinn til að tala um það.

Ég er líka tilbúinn til að tala um það hvort greinin „Fyrri spjöll skuli bætt eftir föngum“, eigi að vera í nýrri stjórnarskrá eða ekki. Mér finnst það frekar augljóst, ákveðin réttindi eru fólgin í því. Að sjálfsögðu er erfitt að tala um eina og eina setningu og þetta þarf að vera í samhengi allrar greinarinnar, en þetta er upptalningin á því og samanburður á núverandi stjórnarskrá og frumvarpi stjórnlagaráðs sem mér finnst mjög mikilvæg gögn inn í umræðuna til að slá á þá gagnrýni sem hefur komið á ferlið að búa til nýja stjórnarskrá og til þess að slá í rauninni á ákveðinn ótta, að fúll á móti fái ekki að ráða. Þannig verðum við að hafa sátt um það að breyta frumvarpi stjórnlagaráðs en ekki að breyta stjórnarskránni. Ef við erum alltaf að leita að sátt um að breyta stjórnarskránni ræður fúll á móti og ég vil ekki að fúll á móti ráði.