149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

stjórnarskipunarlög.

501. mál
[18:16]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið sem kom þó í rauninni ekki af því að ég spurði þingmanninn hvort hann gæti þýtt umrætt ákvæði fyrir okkur í þingsal og þá sem heima sitja og á pöllum sitja, útskýrt hvað ákvæðið merkir. Getur forseti ákveðið að einhver lagaákvæði eigi ekki við? Getur forseti ákveðið að einhverjir tilteknir aðilar þurfi kannski ekki að fara að ákveðnum lögum eftir því sem honum hugnast? Getur hann ákveðið að einhver einn aðili þurfi ekki að fara að lögum en aðrir þurfi það, eða bara eitthvert eitt tiltekið lagaákvæði?

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann, fyrst ég er hérna, hvort hann telji þegar forsetinn þarf að bregða sér af bæ að handhafar forsetavalds hafi slíkt vald líka. Er þá um að ræða t.d. forseta þings, forseta Hæstaréttar og forsætisráðherra? Telur hv. þingmaður að hæstv. forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, hafi þegar okkar ágæti forseti, Guðni Th. Jóhannesson, bregður sér af bæ vald til að ákveða að einhver lög gildi ekki og geti þá gert það í samráði við forseta Hæstaréttar og forsætisráðherra? Getur hver og einn handhafi ákveðið það?