149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

stjórnarskipunarlög.

501. mál
[18:39]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Herra forseti. Rúm sex ár eru liðin síðan fram fór þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem þjóðin samþykkti að frumvarp stjórnlagaráðs yrði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Niðurstöður þeirrar atkvæðagreiðslu hafa fram að þessu ekki fengið þann hljómgrunn sem þær eiga skilið.

Nú er það svo að fullveldisrétturinn er hjá þjóðinni og er hún stjórnarskrárgjafinn. Hlutverk Alþingis er öðru fremur formlegs eðlis, enda er stjórnarfyrirkomulag Íslands fulltrúalýðræði. Kjósendur landsins velja sér fulltrúa til að starfa fyrir sig, í sína þágu og í sínu umboði. Það verður að teljast harla ósanngjarnt að íslenska þjóðin þurfi árið 2019 að búa við þann veruleika að gildandi grunnsáttmáli hennar sjálfrar sé skrifaður af dönskum karlmönnum á þarsíðustu öld.

Í nýju stjórnarskránni eru ákvæði um málskotsrétt þjóðarinnar. Nú höfum við horft upp á töluverðan óstöðugleika í íslenskum stjórnmálum á síðustu misserum og í tvígang hafa ríkisstjórnir sprungið. Ég er sannfærð um að búi þjóðin að þessum málskotsrétti muni skapast aukin ró og aukið traust á stjórnmálum. Þegar þjóðin veit að hún getur haft meiri aðkomu að málum er hana varðar trúi ég að gjáin á milli þings og þjóðar muni minnka.

Forseti Íslands hefur tjáð sig um stjórnarskrána. Við þingsetningu árið 2017 hvatti hann Alþingi hér í ræðustól til að huga að ákvæði stjórnarskrárinnar er varðar hlutverk og valdsvið forseta. Hann tjáði Alþingi að í núverandi stjórnarskrá væru óræð og illtúlkanleg ákvæði er varða hans hlutverk sem forseta Íslands. Hann lauk máli sínu með orðunum:

„Við núverandi ástand verður ekki unað.“

Ég óska þessu fallega kveri velfarnaðar hér inni á þingi og treysti því og trúi að framkvæmdarvaldið og þingið allt viti hversu mikið er undir nú þegar þetta veigamikla mál er aftur komið í þingsal Íslendinga. Nú er málið í höndum ríkisstjórnarinnar, hún fær tækifæri til að breyta rétt. Nú fáum við öll sem hér störfum dýrmætt tækifæri til að standa með þjóðinni okkar, sýna henni þá virðingu sem hún á skilið og það traust sem hún á inni.

Kannski verður það traust og sú virðing endurgoldin Alþingi í kjölfarið. Hver veit?

Það myndi marka nýtt upphaf fyrir okkur sem þjóð til að sameinast á ný með þau gildi sem við höfum komið okkur saman um.

Í fyrra héldum við upp á 100 ára fullveldisafmæli okkar og nú, árið 2019, höldum við upp á 75 ára sjálfstæði okkar sem þjóðar. Það væri því heilbrigt skref í átt að auknu sjálfstæði og það væri falleg gjöf til okkar sjálfra, okkar allra, að fagna þeim áfanga með nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.