149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

sala fullnustuíbúða Íbúðalánasjóðs.

[10:43]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég segi erum við hv. þingmaður sammála um að mikilvægt er að birta þessi gögn. Þess vegna hefur ráðherrann beint tilmælum til Íbúðalánasjóðs um að gögnin verði birt. Íbúðalánasjóður hefur sent erindi til Persónuverndar, er mér kunnugt um, þar sem óskað er heimildar til þess að allar slíkar upplýsingar séu jafnóðum birtar á vefsíðu Íbúðalánasjóðs.

Ráðherrann sem hér stendur getur ekki farið í það að túlka persónuverndarlög á einn eða annan hátt í pólitískum tilgangi. Þar er ekki hægt að velja og hafna. Þess vegna vinnum við þetta á þennan hátt. Ég hvet hv. þingmann á móti, telji hann að skoða þurfi málið eitthvað frekar, til að óska eftir fundi í viðeigandi nefnd og kalla til alla aðila, eins og þingmaðurinn er hvattur til að gera í skriflegu svari, þar til fæst niðurstaða í málið, sem vonandi verður innan tíðar og þá getum við lokið því á farsælan og góðan hátt. (Gripið fram í.)